Svo gerðist það á mánudagsmorgun, að loks átti að láta verða af brottflutningi fjölskyldunnar, enda rennur frestur spænskra stjórnvalda til viðtöku út á morgun.
Leiðari Moggans.
Stjórnmál
„Svo gerðist það á mánudagsmorgun, að loks átti að láta verða af brottflutningi fjölskyldunnar, enda rennur frestur spænskra stjórnvalda til viðtöku út á morgun. Hún beið þess að stíga um borð í flugvél suður í Leifsstöð, þegar Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra krafðist þess að förinni yrði frestað, svo ræða mætti málið á ríkisstjórnarfundi á þriðjudag. Undir bjó hótun um stjórnarslit,“ segir í leiðara Moggans í dag.
„Orðið var við kröfunni, þó ljóslega gæti ríkisstjórnin engu breytt eða knúið dómsmálaráðherra til þess. Til hvers var þá beðið um frestun og fund? Jú, beinlínis til þess að ónýta brottförina og koma í veg fyrir að spænsk stjórnvöld veittu fjölskyldunni viðtöku. Við svo búið þarf Útlendingastofnun að taka hælisbeiðni hennar til efnislegrar meðferðar,“ segir einnig í leiðara Moggans.
„Ráðherrar Vinstri grænna höfðu það með öðrum orðum fram, með klækjum og kúgunartilburðum við ríkisstjórnarborðið, að lögmæt stjórnvaldsákvörðun náði ekki fram að ganga. Og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins létu sig hafa það að koma út af ríkisstjórnarfundi og segja að ákvörðunin stæði, vitandi fullvel að henni yrði ekki framfylgt.
Við blasir að innan stjórnarinnar er ekki sá trúnaður, hvað þá heilindi, sem lífvænlegri ríkisstjórn eru nauðsynleg. Hitt er verra, að stjórnsýsla landsins er komin í uppnám þegar geðþótti eins stjórnarflokksins getur afstýrt framkvæmd stjórnvaldsákvarðana sem eru á lögum reistar og eru ekki einu sinni á hans ábyrgð. Það er óþolandi.“
Svona er það. Leiðarinn sýnir glöggt hversu Sjálfstæðisflokki er misboðið. Ekki er víst að VG eigi meira inni. Trúlega þurfa að vera stillt og prúð.