- Advertisement -

Þeir fá bestu lóðirnar sem múta mest

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins spyr áleitinna spurninga um lóðaúthlutanir í Reykjavík. Í blaðinu er svo frétt þar sem fullyrt er að nokkuð sé um mútur í byggingariðnaðinum.

Rósa Guðbjartsdóttir, forseti bæjarstjórnar í Hafnarfiði, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Þau hljóta að svara frétt Fréttablaðsins, rétt einsog Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.

„Eruð þið búin að selja verktökum og fjárfestum sál ykkar og sannfæringu?“ Þannig endar Kolbrún Bergþórsdóttir, leiðarahöfundur Fréttablaðsins, leiðara dagsins. Þetta er afar áleitin spurning. Ekki síst þegar ein helsta frétt blaðsins fjallar um mútur og mútuþægni í byggingariðnaði í Reykjavík og nágrannasveitarfélögunum.

„Nokkuð er um mútubrot og aðra óeðlilega fyrirgreiðslu í byggingariðnaði á Íslandi, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, ekki síst í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar,“ segir í frétt blaðsins.

Auðjöfrar fá hjarta Reykjavíkur

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Fólk þarf ekki að vera í Sósíalistaflokknum til að spyrja sjálfsagðra spurninga eins og af hverju slík ofuráhersla sé lögð á hag auðjöfra að þeim sé ætlaður alveg sérstakur staður í hjarta Reykjavíkur,“ segir Kolbrún og skrifar svo:

Uppgangur:
Fréttablaðið segir mútur tíðkast í byggingum.

„Það má svo velta fyrir sér af hverju ekkert heyrist frá borgarstjórnarmeirihlutanum um allan þennan ofurlúxus sem þarna er fyrirhugað að skapa. Ekki er hægt að ætla annað en meirihlutanum þyki þetta hið besta mál. Allavega heyrast ekki óánægjuraddir úr þeim ranni. Finnst Vinstri grænum í borginni það virkilega vera brýnt forgangsmál að hlaða undir auðmenn? Hvar er jafnaðarstefna Samfylkingarinnar, er henni bara veifað stundum en falin þess á milli? Og eru Píratar að breytast í örgustu kapítalista? Er Björt framtíð svo buguð að hún getur ekki lengur tjáð sig? Gott væri að fá svör við þessum spurningum fyrir kosningar. Og um leið á að spyrja þennan sama meirihluta: Eruð þið búin að selja verktökum og fjárfestum sál ykkar og sannfæringu?“

Peningar í bréfpokum eða penthouseíbúðir

Aðalheiður Ámundadóttir blaðamaður skrifar fréttina.

Aðalheiður skrifar: „Fyrirgreiðslan sem boðin er eða óskað er eftir, gegn því að samningur um sölu lóðar eða stór byggingarverkefni gangi í gegn, getur verið með ýmsum hætti. Í samtölum blaðsins við fjárfesta í umræddum iðnaði, verktaka og aðra sem til þekkja, hafa verið nefnd dæmi allt frá hagstæðu verði á þakíbúðum bygginga sem rísa eiga á umræddum byggingarreit til fyrirheita um margar milljónir í reiðufé í brúnum bréfpokum.“

Ólafur Þór Hauksson:
„Freistnivandinn verður til þegar verðið á þessum gæðum verður svona hátt.“

Freistnin er til staðar, segir saksóknari

„Hvort tveggja er refsivert, hvort heldur menn eru að þiggja mútur eða bjóða, og gildir þá einu hvort það er í einka- eða opinbera geiranum,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í frétt Fréttablaðsins.

Þar segir hann einnig að hækkun fasteignaverðs og mikla eftirspurn eftir lóðum og fasteignum auka hættu á brotum af þessu tagi. „Freistnivandinn verður til þegar verðið á þessum gæðum verður svona hátt,“ segir Ólafur í samtalinu við Fréttablaðið.

Vinnuhópur á vegum samtaka Evrópuríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka lauk nýverið sinni fjórðu úttekt hér á landi, skrifar Aðalheiður. „Í niðurstöðum kemur meðal annars fram að íslensk stjórnvöld hafi takmarkaðan skilning á hættum sem fylgja peningaþvætti og þótt lagaumhverfið sé gott hafi rannsóknum og eftirliti með peningaþvætti ekki verið n æ g i l e g a vel sinnt.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: