Það þarf ekki djúpsálarfræðing til að átta sig á að þeim líður illa og treysta í engu Donald Trump.
Hér er kafli úr grein Kolbrúnar Bergþórsdóttur sem birt er í Mogga morgundagsins.
„Það er ekki hægt að afsaka Donald Trump með því að skilgreina hann sem mann sem fari óvenjulegar leiðir eða mann sem hafi unun af að ögra. Hann hefur, eins og ekkert sé, gjörbreytt utanríkisstefnu Bandaríkjanna og gert að verkum að leiðtogar þjóða sem áður voru vinaþjóðir Bandaríkjanna geta ekki lengur treyst Bandaríkjastjórn. Það er dapurlegt að sjá þjóðarleiðtoga heimsækja Hvíta húsið, sýna sig á myndum með Bandaríkjaforseta og reyna að láta eins og ekkert sé. Það þarf ekki djúpsálarfræðing til að átta sig á að þeim líður illa og treysta í engu Donald Trump. Um leið eru þeir að reyna að halda frið við hann.
Fyrir einhvern misskilning virðist Trump flokka sig sem friðarhöfðingja og leggur alla áherslu á að koma á friði í Úkraínustríðinu. Í huganum skapar hann eigin heimsmynd sem byggist á órum og sakar Úkraínumenn um að stefna að þriðju heimsstyrjöldinni með því að verjast árás Rússa. Forseti sem talar á þennan veg er vitanlega ekki í jafnvægi.
Ekki er hægt að réttlæta ofsóknir Trumps gegn transfólki.
Þegar forseti lands sem kennir sig við frelsi tekur síðan að skerða mannréttindi minnihlutahópa þá verða menn að staldra við og íhuga vandlega hvort það geti talist forsvaranlegt að þegja og láta eins og ekkert sé. Donald Trump og kónar hans elta og ofsækja transfólk, eins og þar sé um að ræða stórhættulegan hóp sem þjóðaröryggis vegna verði að svipta tilverurétti. Ekki er hægt að leggja nógu ríka áherslu á hversu skelfilegt það er þegar stjórnvöld stimpla ákveðna hópa sem óæskilega og reyna að uppræta þá með því að hræða þá og ofsækja. Sagan geymir ógnvekjandi dæmi um einmitt þetta.
Ekki er hægt að réttlæta ofsóknir Trumps gegn transfólki. Stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum virðast margir hugsa sem svo að stundum borgi sig ekki að blanda sér í mannréttindabaráttu því ekki megi skaða samskipti við Bandaríkjastjórn meir en orðið er. Þetta er sorgleg afstaða og því ríkari ástæða er til að þakka þeim sem neita að þegja.“
Svona er það. Hér er tekið undir hvert orð hjá Kollu. Nú er spurt hvort þeir forystumenn sinna landa sé illa farnir að þrælslund vegna þess hvernig maður situr í Hvítahúsinu nú og næstu ár.