Guðrún hét sjálfstæðismönnum því að auka fylgi flokksins á ný til þess sem áður var, kalla nýja fylgismenn til liðs við hann og laða fyrri félaga aftur heim.
Mogginn krefst mikils af Guðrúnu Hafsteinsdóttur, nýkjörinni til forystu í Sjálfstæðisflokknum, hún er minnt á í leiðar að henni beri að standa við það sem hún sagði í kosningabaráttunni. Að rífa upp fylgið og sækja það fólk sem hefur yfirgefið flokkinn og leitað til Viðreisnar og Miðflokksins. Mogginn reiknar með að erfitt verði að eiga við forystukonur stjórnarflokkanna:
„Þar mun reyna mikið á hinn nýja formann Sjálfstæðisflokksins, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem þarf að eiga í fullu tré við mælsku og málafylgju þeirra Kristrúnar Frostadóttur og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, í bland við hrópin í Ingu Sæland. Það verður hennar stóra prófraun, allt þar til kemur að alþingiskosningum, sem eiga ekki að fara fram fyrr en 2028, en gætu hæglega brostið á fyrr,“ segir í leiðara dagsins.
Guðrún hét sjálfstæðismönnum því að auka fylgi flokksins á ný til þess sem áður var, kalla nýja fylgismenn til liðs við hann og laða fyrri félaga aftur heim. Henni verður eflaust nokkuð ágengt, þó ekki væri nema vegna þess að í nýliðnum kosningum fór fylgið í sögulegt lágmark og leiðin liggur varla nema upp á við. En mælikvarði hennar er fyrra jafnaðarfylgi flokksins, sem er nær 35% kjörfylgi. Það verður erfiðara, en engan veginn handan hins mögulega fyrir duglega og samhenta forystu.“