- Advertisement -

Hálfur milljarður í sjálfstignun Guðlaugs Þórs

Þetta er fleira starfsfólk en vinnur á Stundinni og Kjarnanum og miklu fleira fólk en vinnur við erlendar fréttir á Ríkisútvarpinu, Mogganum, Fréttablaðinu eða Stöð 2.

Gunnar Smári skrifar:

Það er ekki bara að forysta stjórnmálaflokkanna dragi sér óheyrilegt fé úr ríkissjóði undir þeim formerkjum að verið sé að styrkja lýðræðið (þetta virkar öfugt, fjárhagslegur stuðningur við forystu stjórnmálaflokka eykur völd hennar og klíkunnar kringum hana en dregur úr afli og áhrifum grasrótarinnar) og skaffi stjórnmálafólki aðstoðarfólk (sem aftur virkar gegn lýðræði, þetta eru svona aðdáendur nr. eitt sem mæra stjórnmálafólkið, byggir upp sýndarveruleika þess og girðir fyrir eðlileg samskipti við almenning) og greiði kostnað við alls kyns stjórnmálastarf (t.d. ökuferðir stjórnmálafólks um kjördæmin, sem frægt er orðið) heldur tekur steinn úr þegar komið er í ráðuneytin sem að meira en hálfu leyti eru orðin að sjálfstignunarstofnunum ráðherra. Þetta leikur ráðherranna náttúrlega illa, sem telja sig margir núorðið sérstakt afburðarfólk og réttborið til valda, og skaðar raunverulega starfsemi ráðuneytanna en þetta mengar líka alla samfélagsumræðu.

Tökum dæmi af Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra. Hann heldur tvo aðstoðarmenn sem hafa það verkefni til að byggja undir pólitískan feril hans; Borgar Þór Einarsson og Diljá Mist Einarsdóttir. Hann heldur síðan ritstjórn sem ætlað er að matreiða upplýsingar inn í íslenskt samfélag sem geri hlut ráðherrans sem stærstan og mestan. Við þetta vinna sjö manns, margt reynt fjölmiðlafólk: María Mjöll Jónsdóttir, Sveinn H. Guðmarsson, Björn Malmquist, Gunnar Salvarsson, Áslaug Karen Jóhannsdóttir, Hafþór Reinhardsson og Rún Ingvarsdóttir.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta er fleira starfsfólk en vinnur á Stundinni og Kjarnanum og miklu fleira fólk en vinnur við erlendar fréttir á Ríkisútvarpinu, Mogganum, Fréttablaðinu eða Stöð 2. Enda stýrir þessi einka-ritstjórn Guðlaugs Þórs erlendum fréttum á Íslandi að mestu, öllum fréttum sem Guðlaugur leggur áherslu á. Þetta sást ágætlega í fréttum Ríkissjónvarpsins í gær sem skilja mátti sem einskonar einvígi Guðlaugs Þórs og Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, sem Guðlaugur hafi sigrað við gríðarlegan fögnuð allra þjóða (myndefnið var m.a. af sal af fólki að klappa fyrir Gulla).

Úthald á þessari sjálfstignunarskrifstofu Guðlaugs Þórs og á aðstoðarmönnum hans kostar almenning líklega um 400-500 milljónir á ári. Það er það sem þið leggið til uppbyggingar pólitísks ferils Guðlaugs. Og til þeirrar upplýsingaóreiðu og -mengunar sem af því leiðir. Á sama tíma veikjast fjölmiðlarnir, svo þeir verða varnarlausari fyrir áróðri; annars vegar frá hinni spilltu stjórnmálastétt og hins vegar frá áróðursmaskínum auðvaldsins.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: