- Advertisement -

Helga Vala slær til Davíðs í Mogganum

Lægra verður varla lagst í til­raun­inni til að vekja at­hygli smá­menn­anna, viðhlæj­enda rit­stjór­ans.

Helga Vala Helgadóttir.

Davíð Oddsson fær það óþvegið í eigin blaði. Helga Vala Helgadóttir vandar honum ekki kveðjurnar í nýrri grein, sem birt er á leiðarasíðu Moggans.

„Rit­stjóri Morg­un­blaðsins og fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri ryðst fram á rit­völl­inn í leiðara blaðsins fyr­ir helgi og skýr­ir fyr­ir les­end­um sín­um hvað að hans mati varð Silicon Valley-bank­an­um að falli á dög­un­um. Ein­hver hefði talið að fyrr­ver­andi seðlabanka­stjóri, sem hef­ur góða reynslu af því að fara illa að ráði sínu við stjórn banka, hefði lært sitt af hverju á löng­um ferli sín­um en nei, leita skyldi söku­dólga þar sem síst skyldi.

Af lestri leiðarans virðist rit­stjór­inn fast­ur í gam­alli heims­mynd, og væri það svo sem í lagi ef ekki væri um að ræða rit­stjóra fjöl­miðils sem eitt sinn naut nokk­urr­ar virðing­ar hér á landi. Enn er það fólk sem tel­ur leiðara fjöl­miðils vera ein­hvers kon­ar stefnu­yf­ir­lýs­ingu fjöl­miðils­ins og þess vegna má segja að það sé nokkuð al­var­legt þegar meiðandi orð gagn­vart minni­hluta­hóp­um fá að flæða þar um. Rit­stjór­inn virðist telja að ver­öld­in sé óbreytt frá því hann steig á jörðina, fyr­ir margt löngu, og að hans heims­sýn sé hin rétta óháð ver­öld­inni sem ein­mitt er breyt­ing­um háð. Þannig virðist rit­stjór­inn telja sóma að því að ráðast á minni­hluta­hóp trans­fólks og kenna hon­um um fall bank­ans í Kís­ildaln­um.

Hér á landi hafa menn eins og rit­stjór­inn fengið stjórn­lausa út­rás fyr­ir andúð sína á nú­tím­an­um…

Lægra verður varla lagst í til­raun­inni til að vekja at­hygli smá­menn­anna, viðhlæj­enda rit­stjór­ans. Það að fyr­ir­tæki velji sér nú­tíma stefnu­hætti og viður­kenni það sem al­kunna er er hvorki óeðli­legt né skaðlegt held­ur ákjós­an­leg fram­vinda í fyr­ir­tæki sem vill lifa og njóta trausts sam­fé­lags­ins. Þannig er það part­ur af þeirri ver­öld sem við lif­um í, við sem ekki erum föst í skýja­kljúfi fortíðar rit­stjór­ans. Eitt sinn bjó fólk í fel­um árum sam­an fyr­ir það eitt að fella hug til annarra en þeirra sem sam­fé­lag­inu þótti við hæfi. Einu sinni var það svo að kon­um sem áttu börn utan hjú­skap­ar var drekkt á Þing­völl­um fyr­ir hórdóm. Einu sinni var það svo að hinseg­in fólk á Íslandi flúði land vegna of­sókna þeirra sem töldu það á ein­hvern hátt skaðlegt sam­fé­lag­inu en ekki leng­ur. Sem bet­ur fer. En í dag þykir það í lagi í ákveðnum klík­um að valda­stétt­ir virði sín­ar saurugu hugs­an­ir vit­andi að þær munu meiða fjölda fólks sem hafa ekk­ert til saka unnið, mögu­lega var­an­lega með óaft­ur­kræf­um af­leiðing­um. Í dag þykir skaut­un­ar­menn­ing vald­hafa smart í ákveðnum hóp­um. Ein­hver rekja það til fyrr­ver­andi for­seta Banda­ríkj­anna sem lét það aldrei trufla sína meiðandi umræðu þótt hann hafi verið þess fullmeðvitaður að með orðum sín­um væri hann að auka vanda sam­fé­lags­ins og skaða veru­lega minni­hluta­hópa sem sættu of­sókn­um af hans hálfu. Hér á landi hafa menn eins og rit­stjór­inn fengið stjórn­lausa út­rás fyr­ir andúð sína á nú­tím­an­um, á síðum Morg­un­blaðsins, sem eitt sinn þótti sómakær fjöl­miðill. Það er miður því mik­il­vægi vandaðra fjöl­miðla hef­ur sjald­an verið meira.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: