- Advertisement -

Hluthafarnir sögðu nei, fjármálaráðherra sagði já

- frumvarp um 4,7 milljarða til viðbótar í Vaðlaheiðargöng lagt fram á Alþingi.

Ríkissjóður mun draga framkvæmdirnar við Vaðlaheiðargöng að landi. Frumvarp þess efnis hefur verið lagt fyrir Alþingi og víst er að það verður samþykkt.

Þar segir það vera mat fjármála- og efnahagsráðuneytisins að hagfelldast sé fyrir ríkið að verkefninu verði lokið og það síðan skoðað í framhaldinu hvernig framtíðarfjármögnun ganganna verður best hagað eftir að öll óvissa er frá og reynsla verður komin á rekstur þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að heimild fáist til að lána Vaðlaheiðargöngum hf.  allt að 4,7 ma.kr. umfram þá heimild sem áður hefur verið veitt félaginu til framkvæmdanna.

Fyrir liggur að hluthafar sögðu nei við að leggja félaginu til aukið hlutafé til að standa undir framangreindum aukakostnaði. „Ljóst er að verði framkvæmdinni ekki að fullu lokið kann ríkissjóður sem lánveitandi að skaðast auk þess sem göngin sem nánast eru fullgrafin munu ekki skila þeim samfélagslega ávinningi sem stefnt var að,“ segir í greinagerðinni.

Talið er ólíklegt að unnt verði að endurfjármagna framkvæmdalán vegna Vaðlaheiðarganga á markaði án ríkisábyrgðar, það er á kjörum sem gera að verkum að göngin standi undir sér fjárhagslega, og að ríkissjóður fái lán sín til Vaðlaheiðarganga hf. endurgreidd að fullu. „Þó kunna þær aðstæður að skapast síðar að unnt verði að endurfjármagna þessi lán á ásættanlegum kjörum.“

Um Vaðlaheiðargöng eru mjög deildar meiningar. Ólöf heitinn Nordal, þá innanríkisráðherra, sagði í þættinum Sprengisandur fyrir fáum árum að reikningurinn myndi lenda á skattgreiðendum. „Tveir plús tveir verða aldrei fimm, sama hvað þú reyn­ir að reikna,“ sagði Ólöf.

Ábyrgð ríkissjóðs vegna Vaðlaheiðarganga verður því minnst 14,4 milljarðar króna.

Frumvarpið má lesa hér.

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: