- Advertisement -

Íslensk stjórnmál föst í eigin rugli

Þrælsóttinn gagnvart Sjálfstæðisflokki er mikill.

Sigurjón Magnús Egilsson skrifar:

Íslensk stjórnmál hafa sjaldan, kannski aldrei, legið lægra en nú. Íslensk stjórnmál hafa áorkað því að dómskerfi þjóðarinnar er meira og minna í lamasessi. Íslensk stjórnmál eru sek um fullkomið getuleysi.

Síðasta klúðrið er yfirgengilegt. Og lausnin er fádæma aum. Þegar búið er að gera dómskerfið meira og minna óstarfhæft, og beðið er að alvarlegar afleiðingar þess birtist hver af annarri, fann ríkisstjórnin ekki annan, eða betri kost, en skipa afleysingaráðherra tímabundið. Í hálft starf til að taka á þeim himinháum vandamálum sem íslensk stjórnmál hafa skapað. Með frekju sinni til að koma rétta fólkinu að. Hvar sem er.

Fjöldi fólks verður fyrir fjárhagstjóni og öðrum óþolandi erfiðleikum vegna þess að með frekjuskap hefur tekist að lama stóran hluta dómskerfisins. Spor Sigríðar Á. Andersen eru eflaust stærst í þessu fáránlega klúðri. En fleiri eiga þar stór og óafmánanleg spor. Þar verður að nefna Bjarna Benediktsson.

Sjálfstæðisflokkurinn á stærstan hlut í klúðrinu. Hinir flokkarnir allir eru, einhverra hluta vegna, haldnir ólýsanlegum þrælsótta gagnvart Valhellingum. Og ekki bara núna. Heldur alltaf. Þá og nú.

Helgi Seljan skrifar makalausa samantekt og upplýsir þar að undrun stjórnmálafólksins getur ekki annað en verið tilbúningur.

Helsta ruglið í nýjasta málinu er að öllum hafi komið á óvart að Mannréttindadómstóllinn kæmist að þeir niðurstöðu sem varð. Helgi Seljan fréttamaður tók þetta saman:

„Rík­is­stjórn­in átti ekki von á því að dóm­ur Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í Lands­rétt­ar­mál­inu myndi falla á þann veg sem hann gerði.“

-júní 2017

15 dómar skipaðir í Landsrétt, einungis 11 höfðu verið valdir hæfastir af valnefnd. Ráðherra sækir fjóra nýja neðar á listann en hendir fjórum ofar á listanum út, án nægjanlegs rökstuðnings, þvert á ráðleggingar sérfræðinga.

-September 2017

Héraðsdómur telur lög hafa verið brotin við skipan Landsréttar

-Desember 2017

Hæstiréttur segir lög hafa verið brotin við skipan í Landsrétt.

-Maí 2018

Hæstiréttur telur dómara sem ráðherra braut lög við að skipa í Landsrétt engu að síður skipaðan löglega.

-Maí 2018

MDE berst kæra frá Íslandi vegna skipunar dómara í Landsrétt.

-júní 2018

MDE ákveður að taka kæruna í flýtimeðferð (sem er fordæmalaust með mál frá Íslandi)

-Desember 2018

MDE hafnar frávísun íslenska ríkisins og spyr mjög beinskeytt að því hvernig íslensk stjórnvöld telji það samrýmast 6. grein Mannréttindasáttmálans þegar Hæstiréttur segi lög hafa verið brotin við skipun Landsréttardómara, en að dómarar sitji þar löglega, að mati sama Hæstaréttar.

-Mars 2019 MDE dæmir íslenska ríkið brotlegt við 6. Grein mannréttindasáttmálans.

-Mars 2019 Íslensk stjórnvöld láta eins og málið sé einskær þruma úr heiðskíru; eins og snjóstormur í júlí; engisprettufaraldur í Eyjafirði. Enginn hafi getað eða búist við að málið færi með þessum hætti. Eðlilega hafi því engum dottið í hug að búa sig með nokkru móti undir þessa niðurstöðu.

Eðlilega.“

Gunnar Axel Axelsson blæs rykinu úr slóð Sjálfstæðisflokksins í frekjuferðunum um dómskeri landsins.

Þetta er þörf samantekt hjá Helga og hafi hann þakkir fyrir. Hvaða bull er þetta að niðurstaðan hafi komið á óvart? Vonlaus málflutningur.

Gunnar Axel Axelsson tók annað saman:

Árið 2003 tók ráðherra Sjálfstæðisflokksins á sig lykkju og skipaði frænda formanns flokksins í embætti Hæstaréttardómara, þvert á niðurstöðu hæfnismats. Málsvörn þess ráðherra var efnislega sú að honum fannst hæfnisnefndin ekki taka nægilegt tillit til ákveðins hæfnisþáttar (sem ekki var þó tiltekinn í auglýsingu) en það vildi svo skemmtilega til á að frændinn hafði einmitt bakgrunn á þessu tiltekna sviði.

Ári síðar skipaði annar ráðherra Sjálfstæðisflokksins besta vin formanns flokksins í embætti dómara við Hæstarétt. Líkt og frændinn raðaðist vinurinn ekki með þeim efstu í mati hæfnisnefndar en ráðherrann dró upp eftiráskýringu og sagði tiltekna reynslu ekki hafa fengið nægilegt vægi í mati á umsækjendum. Það vildi svo heppilega til að vinur formannsins hafði einmitt reynslu á þessu tiltekna sviði.

Árið 2007 var röðin komin að syni formannsins sem fékk úthlutað embætti dómara við héraðsdóm þrátt fyrir að vera ekki talinn með hæfustu umsækjendum. Það kom fáum á óvart þegar ráðherra Sjálfstæðisflokksins setti fram þau rök að sonurinn hefði reynslu sem hinir höfðu ekki. Ráðherrann átti þó í mestu vandræðum með að tilgreina hver þessi merkilega reynsla væri. Ákvörðunin stóð engu að síður.

Í guðanna bænum tölum um hlutina eins og þeir eru, ekkert af þessu fellur undir skilgreininguna á „klúðri“. Ekki frekar en nýjasta tilvikið, þar sem nákvæmlega sömu brögðum var beitt til að reyna að koma „rétta“ fólkinu að.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: