- Advertisement -

Kári svarar Þorbirni Þórðarsyni

Kári Stefánsson skrifar:

Svar við ummælum Þorbjörns Þórðarsonar á K100 í morgun um gagnrýni mína á aðför Einars Þorsteinssonar að Sönnu Magdalenu á RUV kvöldið fyrir kosningar

Þorbjörn Þórðarson.

Þorbjörn, þú gerðir tilraun til þess að slá tvær flugur í einu höggi í morgun þegar þú hjólaðir í mig á K100 fyrir að gagnrýna aðför Einars Þorsteinssonar að Sönnu Magdalenu, þú varðir einn vin þinn og sagðir öðrum til vamms. Hvort tveggja hlýtur að teljast göfugt. Af orðum þínum mátti merkja að þú værir mér sammála um að Einari hafi orðið á mistök, en okkur greinir á um hvort það hafi kallað á gagnrýni eða hvað þá annað hvassa gagnrýni eða ekki. Skoðun þinni til stuðnings sagðir þú að það komi fyrir flesta sem tali í beinni útsendingu að segja hluti sem þeir vildu ekki sagt hafa.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Staðreyndin er sú að fréttamenn rískissjónvarpsins sem birtast reglulega á skjánum okkar eru opinberir einstaklingar og vinna meðal annars við að gagnrýna aðra opinbera aðila þegar þeim verða á mistök. Þess vegna ættu þeir að eiga auðvelt með að taka gagnrýni þegar þegar mistökin eru þeirra og það má líta svo á að hún sé ekki bara eðlileg heldur nauðsynleg. Þá er það spurningin um það hvort gagnrýni mín hafi verið of hvöss sem er spurning sem hljómar skringilega í eyrum þess undurblíða og hófstillta manns sem ég er. Nú skulum við athuga hvað Einar sagði og gaf í skyn með orðunum fleygu sem hann beindi að Sönnu Magdalenu:

  1. Hann sagði að Gunnar Smári Egilsson hefði svikið launþega, sem er ósönnuð ásökun býsna alvarleg á hendur manns sem gat ekki svarað fyrir sig.
    2. Hann sagði að Gunnar Smári væri formaður Sósíalistaflokksins, sem er ekki rétt.
    3. Hann sagði að Gunnar Smári hefði stofnað Sósíalistaflokkinn, en hann var bara einn af mörgum sem gerði það
    4. Hann gaf í skyn að það væri óeðlilegt að Sanna Magdalena segðist berjast fyrir hagsmunum launafólks, vegna breytni Gunnars Smára.

Með þessu gaf hann í skyn að Sanna Magdalena væri í raun réttri ekki í framboði á eigin vegum heldur Gunnars Smára og yrði að standa skil á syndabagga hans. Þetta var sérstaklega óheppilegt vegna þess að Einar er fyrrum formaður Týs, sem er félag ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi, og Sunna var frambjóðandi stjórnmálaflokks, sem er akkúrat hinum megin á hinu pólitíska rófi. Ég held ekki að Einar hafi gert þetta í pólitískum tilgangi. Honum urðu á þessi mistök. Hann hrasaði. En það ber að hafa í huga að vegna pólitískrar fortíðar sinnar er hann haltur maður frá sjónarhorni pólitísks hlutleysis og haltir menn hafa meiri tilhneigingu til þess að hrasa en aðrir. Þess vegna hefði hann átt að vera sérstaklega á verði í samskiptum sínum við Sönnu. Þessi mistök Einars voru um margt býsna alvarleg og höfðu jafnvel haft áhrif á úrslit kosninganna. Sanna hefur meðal annars látið þau orð falla að þau hafi sópað að henni atkvæðum og ýmsir álitsgjafar fjölmiðla hafa tekið í sama streng. Ég held því fram að þessi mistök Einars sem fréttamanns í sjónvarpi kvöldið fyrir kosningar sé af þeim alvarleika að ef ráðherra hefðu orðið á mistök af svipuðum alvarleika þá hefðu kollegar Einars kallað eftir afsögn. Þess vegna benti ég honum á þann möguleika að segja upp. Hann hefur ekki séð ástæðu til þess ennþá, en hver veit nema hann hafi hringt í Sönnu og Gunnar Smára og beðist afsökunar sem hefði verið í samræmi við það sem gott fólk gerir þegar því verða á mistök sem bitna á öðrum. Og svo gæti hann auðvitað gert það opinberlega síðar.

Greinin er tekin af Facebooksíðu Kára Stefánssonar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: