- Advertisement -

„KING OF THE ROAD“

Guðjón S. Brjánsson skrifar:

Já, það er líklega engum blöðum um það að fletta að ég hef tekið við keflinu af títtnefndum kollega mínum, um meint span um þjóðvegi landsins sem einhverjum kann að þykja að keyri úr hófi.

Ég gengst fúslega við þessum titli sem riddari götunnar, hef lagt mig fram um að fara eins mikið um kjördæmið og ég get. Ég hef fyrst og fremst farið akandi í stað þess að fljúga sem er eðlilega talsverður hluti af ferðakostnaði sumra landsbyggðarþingmanna, eftir aðstæðum.

Mér hefur verið úthlutaður bílaleigubíll og tel bæði þægilegt og nytsamleg að nýta landleiðina til samskipta í kjördæminu og vera lang hagkvæmasta kostinn, flýg nánast aldrei.

Öll þessi samskipti met ég hiklaust sem gagnleg, nauðsynleg og einn ánægjulegasta þáttinn í starfi þingmannsins. Því miður gefast ekki næg tækifæri til þessa yfir þingtímann, ég finn fyrir þörf á miklu meiri viðveru úti í kjördæminu. Þess vegna nota ég jafnframt þinghlé, eða það sem sumir kalla frítíma, eins og hægt er allt árið.

Viðvera í þinginu er auðvitað forgangsatriði yfir þingtímann en daglegur heimanakstur frá Akranesi er líka hluti af þessum fréttnæma akstri.

Bílaleigubílar eru semsé látnir landsbyggðarþingmönnum í té til ferðalaga í kjördæmi og til þingfarar, engar sérstakar akstursgreiðslur koma til úthlutunar, a.m.k. ekki í mínu tilviki.

Til glöggvunar er rétt að benda á að hver einasti ekinn km er skráður í rafræna akstursdagbók og erindi tilgreind sundurliðuð, þ.m.t. tilfallandi einkaakstur sem skuldfærður er skv. reglum þingsins en þær má finna á vef þingsins ásamt ýmsum öðrum fróðleik.

Fyrirsögnin er Guðjóns.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: