Það á ekki að stækka kökuna, bara skera sífellt fleiri og minni sneiðar. Kverið um Litlu gulu hænuna þarf að komast á lestrarlista núverandi ríkisstjórnarflokka.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.

„Það var áhugavert að hlýða á stefnuræðu forsætisráðherra í kvöld, ræðu sem samin var í síðustu viku og er nú þegar orðin úrelt. Kafla um kennaraverkföll var bætt við í fáti rétt áður en ræðan var flutt, ekkert var fjallað um fall meirihlutans í Reykjavíkurborg og ekkert um hin ótrúlegu styrkjamál félagasamtakanna í meirihlutanum. Í raun kom ekkert nýtt fram umfram það sem þegar kom fram á blaðamannafundi oddvita ríkisstjórnarinnar í upphafi síðustu viku, nema kannski undarleg lofræða til hinna oddvitanna í ríkisstjórn. Miðað við það sem á undan er gengið sl. vikur var það kannski nauðsynlegt,“ svona skrifaði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir.
„Það sem stendur þó almennt upp úr í verkefnalista ríkisstjórnarinnar er að fyrir utan bráðnauðsynlega baráttu við að auka orkusköpun er ekki eitt einasta mál frá ríkisstjórninni á þingmálaskrá sem fjallar um aukna sköpun verðmæta. Víða á jafnvel að draga úr verðmætum landsmanna – eins og í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, sem hvoru tveggja mun helst bitna á landsbyggðinni. Í besta falli á að endurdreifa þeim verðmætum sem þegar eru sköpuð. Það á ekki að stækka kökuna, bara skera sífellt fleiri og minni sneiðar. Kverið um Litlu gulu hænuna þarf að komast á lestrarlista núverandi ríkisstjórnarflokka.
Það er ljóst að þessi ríkisstjórn þarf mikið aðhald, því ekki viljum við sjá að eins fari fyrir ríkinu og Reykjavíkurborg. Þórdís Kolbrún og Hildur Sverris sýndu það í öflugum ræðum sínum að Sjálfstæðisflokkurinn mun veita það málefnalega og mikilvæga aðhald sem til þarf,“ skrifar formannsefni Sjálfstæðisflokksins.