- Advertisement -

Láglaunakonur eiga líka rétt á góðu lífi

Þarna er verið að nota hagsmuni barna til að hafa áhrif á mikilvæga baráttu fólks fyrir efnahagslegu réttlæti.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, skrrifar:

Mér barst erindi frá umboðsmanni barna vegna verkfallsaðgerða félagsmanna Eflingar sem starfa hjá sveitarfélögunum. Ég viðurkenni að mér var brugðið þegar ég las textann og skilaboðin í honum. Umboðsmaður barna telur að félagsmenn mínir, sem hafa verið samningslausir í meira ár, fólk sem tilheyrir þeim hópi sem er á lægstu launum allra á íslenskum vinnumarkaði, hafi átt að ráðfæra sig við börn áður en ákvörðun var tekin um að leggja niður störf. Máli sínu til stuðnings vísar umboðsmaður í 12 grein Barnasáttmálans sem segir að öll börn eigi að geta látið skoðanir sínar frjálslega í ljós og að taka skuli tillit til þeirra í samræmi við aldur og þroska. Þessum rétti barna er stillt upp gegn lögvörðum rétti minna félagsmanna til að ganga til atkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi verkfallsaðgerðir til að knýja á um réttmæt laun fyrir unna vinnu.

Ég skil ekki hvernig er hægt að sjá málið með þessum augum. Þarna er verið að nota hagsmuni barna til að hafa áhrif á mikilvæga baráttu fólks fyrir efnahagslegu réttlæti. Hvernig getur það verið hlutverk umboðsmanns barna?

Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri.
„Ég reyndi ítrekað að fá fund eða samtal með Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi, en það bar engan árangur.“

Félagsfólk mitt, sem nú berst fyrir bættum kjörum er að stærstum meirihluta konur, eða 80%. Konur sem t.d. sinna heimaþjónustu hjá öldruðum og vinna sem skólaliðar. Þær eru svokallað ómissandi starfsfólk. Þær og aðrir félagsmenn Eflingar hjá sveitarfélögunum frestuðu verkfallsaðgerðum sínum vegna Covid-19 faraldursins, af mikilli samfélagslegri ábyrgð. Áður en til frestunar kom hafði Efling veitt ríflegar undanþágur svo að hægt væri að sinna þjónustu við gamalt fólk og aðra sem þurfa aðhlynningu og aðstoð í sínu daglega lífi. Ég reyndi ítrekað að fá fund eða samtal með Ármanni Kr. Ólafssyni, bæjarstjóra í Kópavogi, en það bar engan árangur. Við samningaborðið var okkur sýndur hroki og nákvæmlega enginn vilji var til að skoða kröfur okkar eða ræða. Við vorum ávallt algjörlega heiðarleg; aðgerðir myndu hefjast að nýju um leið og samkomubanni væri aflétt eða það mildað. Þetta vissu viðsemjendur okkar en þau óskuðu samt ekki eftir því að funda með okkur í þeim tilgangi að leysa málin. Félagsfólk mitt hefur verið við störf undanfarið. Samningslaus, í samneyti við annað fólk og þar af leiðandi í mikilli smithættu. Félagsfólk mitt getur ekki unnið heima. Þau hafa þrifið svo að annað fólk væri öruggara í sínu lífi. Þeim hefur ekki verið þakkað fyrir það.

Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
„Mér finnst miður að umboðsmaður barna hafi reynt að hafa áhrif á baráttu þessa hóps, sem hefur ekki átt sér neina málsvara.“

Mér finnst miður að umboðsmaður barna hafi reynt að hafa áhrif á baráttu þessa hóps, sem hefur ekki átt sér neina málsvara. Sem hefur verið jaðarsettur og í raun því sem næst ósýnilegur. Sem þarf að þola laun sem ekki er hægt að lifa af, og líka skerta heilsu, bæði andlega og líkamlega sökum álags og þeirra erfiðleika sem fylgja endalausum fjárhagsáhyggjum. Sem inniheldur fólk, konur, sem eru oft í fleiri en einni vinnu vegna þess að þær vilja veita börnum sínum betra líf, og efnisleg gæði sem ekki er hægt að uppfylla með smánarlegum launum þeim sem greidd eru fyrir hefðbundinn kvennastörf. Sem er bókstaflega ofur-arðrændur á meðan að bæjarstjórar og fyrirmenni innan kerfisins borga sjálfum sér endalausar milljónir og endalaus fríðindi.

Að lokum:
Ég vona að fólk sem nýtur alls hins besta sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða sjái að láglaunakonur eiga líka rétt á góðu lífi. Þær eiga rétt á samstöðu og stuðningi í sinni baráttu. Þær eru ómissandi og gegna grundvallarhlutverki. Þær hafa frjálsan vilja og sjálfsvirðingu. Þær eins og aðrir hafa rétt á þvi að leggja niður störf til að knýja á um bætt kjör.

Láglaunakonur á íslenskum vinnumarkað höfðu ekki neina rödd og áttu sér ekki neinn umboðsmann. Þær ákváðu því að gerast sinn eigin umboðsmaður. Þá vald-eflingu mun enginn geta tekið af þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: