- Advertisement -

Launaþjófurinn!

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Það er ekki sama hvernig þú stelur og hverju er stolið.

Við búum í samfélagi þar sem löggjafinn og réttarkerfið hefur misjafna sýn á það hvað við skilgreinum sem þjófnað.

Sjálftaka og snúningar innan fjármálakerfisins eru viðtekin venja. Innherjaviðskipti og vinadílar á kostnað almenningshlutafélaga eru flokkaðir sem „djöfulsins snilld“ fína fólksins enda of mikið vesen að gera veður úr slíku þegar undirfjármagnaðar rannsóknarstofnanir eða gagnslausir eftirlitsaðilar mega sín lítils gegn fjársterkum hagsmunaöflum.

Hvor ætli verði sóttir til saka?

Fjárveitingar stjórnvalda ramma inn löggjafann til að eltast frekar við lambalæri og snúða en milljarða undanskot.

Hlutabréfadílar og lántökur án ábyrgða, niðurfellingar skulda með tilfærslum yfir í eignarhaldsfélög er sannanlega ekki sá raunveruleiki sem venjulegt fólk býr við þegar það leitar fyrirgreiðslu eða þarf að semja við bankann þegar áföll dynja yfir.

Eða sækja rétt sinn þegar launum er haldið eftir, stolið, fyrir vinnuframlag.

Aðstöðumunur þeirra sem kunna á kerfið, og eru höfundar þess, raungerist í muninum á því að ef verkamaður, sem væri í vinnu á Landssímareitnum og stelur borvél, og þeirra sem bera ábyrgð á því hvernig almenningshlutafélagið Icelandair, sem var að stærstum hluta í eigu lífeyrissjóða almennings, setja 1,8 milljarð í Lindarvatn þar sem vel „tengdir“ einstaklingar tóku hundruð milljóna króna í þóknanir fyrir fyrirtaks snúning.

Hvor ætli verði sóttir til saka?

Of langt mál er að telja upp þá snúninga sem útrásarprinsarnir tóku á eftirlaunasjóðum almennings fyrir hrun, og eingöngu var sakfellt fyrir brot af þeim málum, á meðan heimilum og einstaklingum blæddi út.

Engu máli skipti þó hópur auðmanna tók stöðu gegn íslensku krónunni og heilu samfélagi með skelfilegum afleiðingum sem aldrei verða metin til fjár.

Hver er staðan í dag og hefur eitthvað breyst?

Sú sorglega staðreynd er að lítið sem ekkert hefur breyst og margt sem bendir til að staðan hafi versnað til muna.

Spillingin og glæpirnir taka á sig önnur form og finna sér annan farveg, eins og vatnið.

Launaþjófurinn er skrýtin skrúfa.

Skattaundanskot, mútugreiðslur, umhverfisglæpir og peningaþvætti eru settir í litríka búninga eðlilegra hversdagsviðskipta sem elítan verður að fá að hafa fyrir sig svo ekki fari að ískra í hjólum atvinnulífsins.

Launaþjófnað verðum við að hafa óáreittan, segja sérhagsmunaöflin, sem beita sér af mikilli hörku gegn því að refsilögum verði komið yfir eitt af fjölmörgum tólum sem sérhagsmunaöflin hafa notað til að græða eða koma ábyrgðinni yfir á aðra ef braskið fer illa.

Fjölmörg fyrirtæki, sem mörg hver voru tæknilega gjaldþrota fyrir Covid, nýta sér nú greiðsluskjól til að halda eftir launum sem starfsmenn geta ekki sótt í ábyrgðarsjóð launa. Siðlaust já, en kerfið sér um sína og kerfið ver kerfið.

Á meðan launum og lífeyrissparnaði er stolið af vinnandi fólki án afleiðinga getum við verið viss um að lítið muni breytast í okkar samfélagi og munum við áfram búa við tvöfalt siðferði og tvöfalt dómskerfi þar sem skilgreiningin á því hvernig þú stelur er túlkuð eftir stétt og stöðu.

Launaþjófurinn er skrýtin skrúfa.

Hann er ekki eins og aðrir þjófar eða bófar.

Hann fær ekki dóm og kemur ekki upp hljóm.

Hann getur skipt um kennitölu og nafn en getur ekki farið á safn.

Launaþjófurinn er leppur sem alltaf sleppur.

Hann stelur tíma og svarar ekki síma.

Hann stelur peningum sem er bara ein hlið á teningnum.

Því hann stelur trú okkar, réttindum og brauði handa börnunum.

Launaþjófurinn skipar sér í hóp annara forréttindaþjófa sem lúta sérstökum leikreglum í íslensku samfélagi, lögmálum frá siðblindu bræðralagi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: