- Advertisement -

Munu krefjast launalækkana

Gunnar Smári skrifar:

Á næstu dögum og vikum mun koma fram styrkleiki áróðursmaskínu auðvaldsins, sem ætlað er nú að hita undir kröfunni um að samningsbundnar launahækkanir 1. janúar verði felldar burt með lögum. Þessi maskína ræður að sjálfsögðu yfir SA, Viðskiptaráði og öðrum hagsmunasamtökum fjármagnseigenda og allra stærstu eigenda allra stærstu fyrirtækjanna; notar greiningardeildir bankanna til að dreifa valkvæðum upplýsingum; maskínan er beintengd Morgunblaðinu, Viðskiptablaðinu og Fréttablaðinu og hefur rennt hugmyndafræðilegum grunni sínum undir fréttastofu Ríkisútvarpsins og helstu umræðuþætti þar, sem og fréttastofu Stöðvar 2/Bylgjunnar/vísis; og getur látið þingflokka Sjálfstæðisflokks, Miðflokks, Framsóknar, VG og Viðreisnar taka undir kröfur sínar.

Það er verið að kynda undir sókn og þið munið sjá þessa maskínu að störfum næstu vikunnar; hún ætlar að sannfæra ykkur um að það fólk sem er í vinnu eigi ekki skilið launahækkanir vegna samdráttar sem rekja má til lokunar hluta hagkerfisins. Ykkur mun vera sagt að lausn við kreppu sé launalækkun, þótt slíkt sé almennt rangt og sérstaklega núna, þar sem lækkun launa fólks á Landspítala, í Samherja eða Bónus mun ekki auka atvinnumöguleika flugmanna, starfsfólks Keflavíkurflugvallar eða leiðsögufólks. Á meðan hluti hagkerfisins er lokaður hafa aðrir hlutar það ágætt og geta vel staðið undir hækkunum launa, sérstaklega þegar ráðgerð hækkun mun bæta mest kjör hinna allra verst settu, fólks sem er lokað inn í fátækt þrátt fyrir fulla vinnu.

Áróðursmaskína auðvaldsins mun boða lækkun launa.

Ykkur mun vera sagt að ráðið í kreppu sé að lækka vexti, auka útlánagetu bankakerfisins, lækka skatta á fjármagns- og fyrirtækjaeigendur, halda aftur að útgjöldum hins opinbera og lækka laun. Þetta er firra. Ráðið við kreppu er sókn sem aðeins hið opinbera getur leitt. Einkafyrirtækin munu ekki ráða fólk þótt laun lækki og ekki taka lán til fjárfestinga þótt vextir lækki á meðan óvissa ríkir um framtíðina. Leiðin út er því að tryggja kaupmátt almennings, einkum þess hluta sem er með lægstu tekjurnar og búa til störf á vegum hins opinbera og aðstoða atvinnulaust fólk í að skapa sér störf í nýjum rekstri, helst samvinnufélögum.

Það sem áróðursmaskína auðvaldsins mun boða er lækkun launa, aðhaldskrafa á opinbera þjónustu, lækkun vaxta, lækkun skatta á fjármagn og fyrirtæki og að hin atvinnulausu verði skilin eftir án verkefna svo eigendur einkafyrirtækja geti gengið að því fólki fyrir lágmarkslaun þegar þeim hentar. Þetta er fráleit stefna, en maskínan er sterk. Ef þið haldið ekki vöku ykkar mun ykkur þykja þetta skynsemi þegar maskínan hefur gengið í nokkrar vikur. Allar spurningar alls fréttafólks og allar spurningar allra spyrla í umræðuþáttunum munu verða upp úr þessari holu heimsku og græðgi hinna fáu, sem líta á kreppu sem tækifæri til að sölsa undir sig enn meiri auð og eignir, enn meira vald og drottnun.

Og á móti þessari maskínu má spyrja: Hvar er maskína alþýðunnar? Einu sinni átti hreyfing alþýðunnar fjölmiðla, bókaútgáfur, alþýðuhús og allskonar sem gat hýst menningu og hugmyndaheim alþýðunnar og verið skjól og mótvægi við drottnun auðvaldsins í samfélaginu. Eigum við þetta ekki lengur vegna þess að við þurfum ekki á þessu að halda eða sambærilegu sem betur myndi henta í dag? Hefur hreyfing alþýðunnar ekki efni á þessu lengur? Er hún búin að gefast upp gagnvart auðvaldinu og lætur hún sér nægja þann árangur sem hægt er að ná fram innan raunveruleika kapítalismans, þar sem áróðursmaskína auðvaldsins dregur línurnar, slær taktinn og gefur tóninn?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: