- Advertisement -

Nota auðinn til að kaupa völd

Viðtal við Stefán Ólafsson.

Hvers vegna er borgaður meiri skattur af launum, sem maður þarf að vinna fyrir, en arðgreiðslum, sem maður þarf ekki að vinna fyrir?

Þeir sem þiggja svona tekjur segja oft að þeir séu að láta fjármagnið vinna fyrir sig — svo þeir þurfi ekki að vinna sjálfir! Þá er hægt að leika golf á daginn í staðinn. Þessi misjafna meðferð í skattkerfinu gengur auðvitað gegn öllum venjulegum skilningi á jafnræði. Þessir skattar voru lækkaðir sem svar við áróðri frjálshyggjunnar. Rökin voru að fólk myndi flýja úr landi með starfsemi og auð, svo einn lægsti skattur Vesturlanda var settur hér á fjármagnstekjur, tíu prósent. Reynslan var samt að einna mest fé flæddi frá Íslandi af vestrænum ríkjum, þótt skatturinn væri svona lágur.

Hvað gera auðmenn við allan þennan pening?

Hann fer í eignasöfnun, hér og erlendis. Hann fer í dýra neyslu. Fólk lifir hátt eins og við sáum á árunum fram að hruni, keypti sér einkaþotur, dýrar snekkjur í Miðjarðarhafinu og Karíbahafinu og byggði glæsivillur sem sumarhús. Svo er ríkt fólk í hörðu lífsgæðakapphlaupi, hver á lengstu snekkjuna og svo framvegis. Svo notar fólk auðvitað auðinn til að kaupa völd.

Hvaða áhrif hefur ójöfnuður á stjórnmál?

Það er beint samband milli aukins ójafnaðar og tilhneigingar til auðræðis. Þegar auðmenn geta keypt sér áhrif í stjórnmálum, þá grefur það undan lýðræðinu. Í Bandaríkjunum sést þetta hvað skýrast, þar sem auðmenn skipta stjórnmálamönnum upp eftir því hverja þeir eiga. Hinir vellauðugu Koch-bræður gera þetta jafnvel opinberlega. Þetta er heilmikil ógnun við lýðræðið.

Hvað verður um lýðræði ef ekki verður tekið í taumana?

Við erum komin í það ástand að alþjóðlegi fjármálamarkaðurinn er kominn með öll völd í heiminum, og rassskellir einfaldlega ríkisstjórnir. Við þurfum að brjótast úr þessu, annars verður lýðræðið bara brandari. Ég held einmitt að við höfum sérstakar aðstæður á Íslandi til að breyta þessu í meiri mæli en aðrar þjóðir, því við höfum óvenju sterka og fjölmenna verkalýðshreyfingu hér.

Hvað er verkalýðshreyfingin að gera til að lagfæra ástandið?

Þessi nýja kröfugerð Starfsgreinasambandsins endurspeglar alger umskipti í verkalýðshreyfingunni. Þetta eru allt kröfur um að hafa bein áhrif á þróun þjóðfélagsins. Enda er það þannig að ef stjórnvöld gefa allt eftir gagnvart þrýstingi frá atvinnurekendum og fjárfestum, þá á það að vera verkefni hreyfingar launafólks að toga ríkisvaldið til baka til að sinna betur almannahag. Hreyfingin er fulltrúi alls þorra almennings hér á landi. Af hverju ætti Sjálfstæðisflokkurinn að ráða öllu í landinu þegar verkalýðsfélögin hafa á bak við sig 90% almennings? Þau eru miklu meiri fulltrúi fólksins en flokkarnir þrír sem sitja í ríkisstjórn. Það er vel viðeigandi á tímum þar sem stjórnvöld hafa orðið fórnarlömb sérhagsmuna, að fjöldasamtök launafólks rétti kúrsinn af.

efling.is

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: