- Advertisement -

Ólöf Nordal: Krabbamein er skepna

„Ég hef ekki farið leynt með að ég hef glímt við krabbamein. Frá því ég fékk það fyrst hef ég deilt því með öllum sem hafa viljað vita af því. Bara vegna þess að mér finnst ég getað hjálpa öðru fólki, og maður er aldrei einn í þessu,“ svaraði Ólöf Nordal í viðtali, sem ég tók við hana 28. ágúst í sumar, í þættinum Þjóðbraut á Hringbraut, þegar hún var spurð hvort hún treysti sér til að snúa aftur til starfa og taka að sér að leiða framboðslista í kosningunum og taka að sér ráðherraembætti kæmi til þess.

Viðtalið er langt, eða rétt um klukkustund. Það má hlusta og horfa á það hér, en það hefst þegar 59 mínútur eru liðnar af þættinum.

Áður en lengra er haldið vil ég geta þess að Ólöf Nordal var einstök í viðkynningu. Auðvelt var að eiga samskipti við hana og stundum töluðum við saman um hluti sem skiptu störf okkar ekki máli. Í veikindum sínum sýndi hún fágætt æðruleysi. Ég mun sakna hennar og samksipta við hana.

Í viðtalinu sagði Ólöf það hafa verið stóra ákvörðun að taka sér að embætti innanríkisráðherra, skömmu eftir krabbameinsaðgerð. „Það var stór ákvörðun fyrir okkur í fjölskyldunni, að taka. Ég hefði aldrei gert þetta nema vegna þess að mér fannst ég geta gert þetta.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún sagði þetta hafa gengið heilsunnar vegna, en krabbameinið tók sig upp.

Fórstu of snemma af stað þegar þú féllst á að verða ráðherra?

„Ég veit ekki hvort það skiptir máli. Hvað skiptir máli þegar krabbamein er annars vegar? Mér finnst krabbamein vera sjálfstæð skepna og virðist bara gera það sem því hentar og lítur engum lögmálum. Auðvitað reynir ég að fara vel með mig, sofa vel og borða rétt. En það eru áhöld um hversu mikil áhrif maður getur haft á framgang krabbameinsins. Það er bara einhver skepna sem býr um sig og maður veit ekkert hvað hún gerir á morgun. Þetta er mikið ólíkindatól. Ég get ekki lifað lífinu þannig að hugsa hvenær næsta áfall dynur yfir mig, ég get ekki lifað lífinu þannig. Mér finnst mikilvægt að þau, sem eru með svona sjúkdóm einsog ég, hvort sem það er krabbamein, hjartasjúkdómar eða hvað eina, viti að við erum líka hluti þjóðfélagsins.“

„Ég get dáið úr krabbameininu og ég get dáið úr öðru líka.“

Hún sagðist vera á viðhaldslyfjum þegar viðtalið var tekið. „Þetta krabbamein er þess eðlis að það fer ekki fet. Öll krabbameinsgildin eru komin niður.“ Hún sagðist sem sagt vera á lyfjum til að halda krabbameininu niðri. „Hvað gerist, ég get ekki sagt til um það.“

Viðtalið er langt og mun ég vinna fleiri kafla úr því á næstunni. Þar koma fram hugsjónir Ólafar og mat hennar á málum og málaflokkum.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: