- Advertisement -

Óskhyggja hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Fréttasvangaveltur innan frá hinni svokölluðu frjálslyndu miðju lituð óskhyggju um Samfylking, Píratar og Viðreisn geti myndað ríkisstjórn. Sem er ómögulegt í þessu lífi. Viðreisn og Píratar eru þéttbýlisflokkar með enga fótfestu úti á landi og þótt Logi Einarsson (NV) og Oddný Harðardóttir (S) séu áberandi þingmenn þá hefur Samfylkingin frá stofnun trompað upp með þéttbýlismál (ESB, landið eitt kjördæmi, uppboð á kvóta, frjáls innflutningur á matvælum). Samanlagt eiga þessir flokkar ekkert erindi út á land og þar sem helmingur þéttbýlisfólks hugsar eins og landsbyggðarfólk í pólitík eru efri mörk þessaa flokka í kosningum um 1/3 atkvæða; 30% á vondum degi, 35% á últra góðum degi.

Þú gætir haft áhuga á þessum

VG leggur af allt sem kalla má vinstri.

Samspyrðing Samfylkingarinnar við Viðreisn á þingi og í borginni er ekkert síður sorgarstaða fyrir vinstrið en samspyrðing VG við Sjálfstæðisflokkinn í ríkisstjórn. VG leggur af allt sem kalla má vinstri og leggur ekkert fram nema það sem xD getur sætt sig við. Sama á við um Samfylkinguna bæði í meirihlutanum í Reykjavík (markaðsvæðing, útvistun, einkavæðing og annað nýfrjálshyggjugotterí) og á þingi (ESB, uppboð á kvóta til hinna ríku og annað nýfrjálshyggjugotterí) en lítil sem engin áhersla á sósíalískar lausnir í atvinnumálum, valdi til fólksins, lýðræðisvæðingu fyrirtækja o.s.frv.

Fyrir utan hvað þetta er heimskuleg herfræði. Það er augljóst á tali Viðreisnarfólks að það hefur enga trú á að úr þessari svokölluðu frjálslyndu miðju verði ríkisstjórn. Í hvert sinn sem það opnar munninni byrjar það á að mæra ríkisstjórnina og sérstaklega Bjarna Benediktsson. Viðreisn ætlar sér inn í ríkisstjórn eftir næstu kosningar sem fjórða hjól undir vagn núverandi ríkisstjórnar.

Núverandi flokkar hafa fylgi rúmlega 1/3 kjósenda; á vondum degi 37,5%, um 42,5% fylgi ef allt fer bærilega í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn er í um 22,5%, VG í um 10% og Framsókn í um 7,5%.

Eftir kosningar hafa Katrín og Bjarni nokkra kosti (enginn spyr hvað Framsókn vill, hún fylgir bara með).

  • 1. Taka Viðreisn inn og gefa þeim sem minnst, kannski aukna áherslu á nýsköpun, svipað og VG er inni fyrir eilítið meiri áherslu á umhvefismál.
  • 2. Taka Miðflokkinn inn og gefa honum sem minnst, kannski aukna áherslu á innviðauppbyggingu á landsbyggðinni, svipað og Framsókn er inni fyrir eilítið meiri áherslu á samgöngur.
  • 3. Taka Samfylkinguna inn og gefa henni sem minnst, kannski leyfi til að setja einhvern smá svip á félagsmálin, svipað og Svandís fær að gera í heilbrigðismálum.

Líkurnar á blokk hinnar svokölluðu frjálslyndu miðju verði í stöðu til að brjóta upp ríkisstjórnina og verða betri kostur fyrir … hvað? VG? xD? Framsókn? Miðflokkinn? Það er ekki hægt að sjá hvernig það á að gerast.

Píratar þurfa að ákveða hvað þeir vilja vera.

Til að mynda hér ríkisstjórn um hagsmuni alþýðunnar þarf ýmislegt að gerast. Sósíalistaflokkurinn þarf að styrkjast og verða segulafl til vinstri á aðra flokka. Grasrót VG þarf að gera uppreisn gegn forystunni og koma í veg fyrir að flokkurinn þjóni xD framar. Það þarf að verða vinstri sveifla innan Framsóknar, helst byggð á sósíalisma Samvinnuhreyfingarinnar á upphafsárum hennar. Og grasrótin í Samfylkingunni, sem er mun meira til vinstri en nýfrjálshyggjuleg forystan, þarf að ná flokknum til sín og gera upp við þriðju leiðina. Píratar þurfa að ákveða hvað þeir vilja vera; ef þeir vilja vera anarkó-kapítalískur flokkur þá finnur félagshyggjufólk sér annan flokk, ef þeir vilja taka þátt í alþýðuuppreisninni sem er byrjuð þurfa þeir að losa sig við nýfrjálshyggjunöttarana sem enn ráða mestu innan flokksins.

Þetta er leiðin til breytinga á samfélaginu. Að halda að einhverjar breytingar náist fram meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur neitunarvald gagnvart VG og Viðreisn gagnvart Samfylkingunni er stjarnfræðileg óskhyggja. Hér mun ekkert breytast meðan vinstrið (eða það sem eitt sinn var vinstri) reynir að starfa með og innan auðvaldsflokkanna.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: