- Advertisement -

Pósturinn er lykill að dreifi- og sölukerfi fyrir hin mörgu og smáu

Búum til samfélag sem hentar okkur, ekki aðeins þeim.

Gunnar Smári skrifar:

Undir ríkjandi hugmyndafræði mun Pósturinn spara þangað til hann deyr eða þar til hann er orðinn að nógu skilvirkri gróðamaskínu að hann geti prentað peninga fyrir eigendur sína og þá mun einhver ríkur karl eða sjóður vill kaupa hann sem maskínu til að verða enn ríkari. Undir ríkjandi hugmyndafræði hefur Pósturinn í raun ekkert samfélagslegt gildi, eina gildi hans er að skila afgangi á rekstarreikningi. Pósturinn hefur týnt sjálfsmynd sinni sem glæsileg stofnun, eitt allra fyrsta samvinnuverkefni samfélagsins, grunnstoð og innviður sem var forsenda samskipta, sem aftur leiddi margt gott af sér og bjó til nýtt samfélag. Í dag er sjálfsmynd Póstsins að hann er lélegt gróðafyrirtæki, hangandi við hengiflug taprekstrar. Ef hann skilar ekki hagnaði tapar hann tilvistarrétti sínum, verður fleygt eins og götóttu stígvéli.

Á sama tíma er endurnýjunarkraftur bænda að kafna í flutningskostnaði. Það eru til bændur um allt land sem framleiða vörur sem eftirspurn er eftir, neytendur vilja kaupa beint frá bónda. Skiljanlega, þannig byggjast viðskipti og mannlegt samfélag upp. Þú finnur góðan pípulagningamann og hringir í hann næst þegar þú þarft á pípulagningamanni að halda, sama á við um veitingastaði, gleraugnasala, nuddara … hvað sem er.

Stórmarkaðir eru eins og þjónustustofnun í miðstýrðu alræðiskerfi.

Stórmarkaðir geta ekki sinnt þessari eðlilegu þörf okkar fyrir að versla við þá sem við treystum og kunnum vel við. Stórmarkaðir eru eins og þjónustustofnun í miðstýrðu alræðiskerfi. Enginn veit hver á þessi ósköp, þau eru byggð upp á atferlisrannsóknum en ekki á beinum samskiptum viðskiptavinar og kaupmanns. Vörurnar eru fluttar að mörkuðunum frá örfáum heildsölum og framleiðendum, stórfyrirtækjum sem hafa aðlagað starfsemi sína að þessum skrímslum. Þarna er ekkert pláss fyrir smáframleiðanda eða bónda, ekkert pláss fyrir árstíðasveiflur í vöruúrvali, ekki pláss fyrir vörur úr nágrenninu. Stórmarkaðurinn er skepna sem beygir samfélagið undir sig og mótar það, en þjónar því ekki. Fyrir utan eru breiður að bílastæðum; stórmarkaðir eru mengunarvaldur sem nýtir illa land og önnur gæði.

Þannig er það, og þetta vita allir. Og margir vilja losna að hluta frá þessum leiðindum, fá að kaupa grænmeti frá bónda sem ræktar tómata með meira bragði, sauði sem gefa af sér vænni læri eða við þann sem býr til ís, súrsað grænmeti eða veganbuff; ekki eins og framleitt er eftir kröfum stórmarkaðarins heldur eins og bóndanum finnst best eða eftir uppskrift ömmu hans.

En þótt þessi markaður sé til þá kviknar ekki á honum eins og forsendur eru til vegna þess að flutningskerfið, lífæðin frá sveitum til borgar og bæja, er vond og dýr. Hún var einkavædd fyrir nokkrum áratugum. Strandsiglingar voru lagðar af og eftir smástund var ríkjandi flutningskerfi í eigu Eimskips og Samskipa, stórtrukkar sem keyra fram og til baka og spæna upp vegina undan þunganum. Eimskip og Samskip borga ekki fyrir vegakerfið, en við borgum Eimskip og Samskip fyrir alla flutninga á landinu. Og það er í höndum þessara fyrirtækja hvernig samskipti sveita og bæja mótast. Þau ráða mestu um hversu lífvænlegt er að búa í dreifðari byggðum og hversu mikið fjárhagslegt vit er í því að byggja upp eigin framleiðslu í sveit.

Og vitið þið hverjir eiga Eimskip og Samskip?

Og vitið þið hverjir eiga Eimskip og Samskip? Það eru Þorsteinn Már Baldursson í Samherja annars vegar, heimsfrægur mútugjafi og sóðamaður í viðskiptum, og Ólafur Ólafsson hins vegar, sá sem laug svo hann gæti eignast Búnaðarbankann, sá sem varð síðar ráðandi hluthafi í Kaupþing og laug þar um flesta hluti ef það færði honum meiri persónulegan hagnað. Þetta eru mennirnir sem stjórna því í dag hvernig Ísland byggist upp, hver verða samskipti sveita og borga og hvort smárekstur dafni.
Hvernig lentum við á þessum stað? Ég nenni ekki að útskýra það hér, þið getið gúgglað Nýfrjálshyggja eða Neoliberalism ef þið viljið byrja að kynna ykkur gagnbyltingu hinna ríku. Þetta er gagnbylting gegn hagsmunum almennings og þess samfélags og þeirra stoða sem reistar voru á fyrri tíð til að halda uppi réttlátara samfélagi. Niðurstaðan gagnbyltingarinnar er það sovétkerfi stórauðvaldsins sem við búum við í dag. Þetta ástand er ýmist kallað auðræði eða klíkuveldi, jafnvel þjófræði. Við búum ekki við virkt lýðræði heldur í ríki þar sem þeir ráða mestu sem náð hafa undir sig eignum og auðlindum almennings, oftast með lygum, svikum og prettum. Mörg ykkar eigið erfitt með að horfast í augu við þessa staðreynd, viljið trúa á hið góða í mannskepnunni í lengstu lög, trúa að margt sé nú gott í þeim Þorsteini Má og Óla Ól. En staðreyndin er sú að í grimmt kerfi auðræðis verðlaunar aðeins vonda hegðun, misnotkun á fólki og stjórnlausa sjálfselsku; og skilur þau eftir, sem hafa náð að krafla sig upp á toppinn á þessum mykjuhaug, stjórnlaus af frekju og sjálfshygli. Þorsteinn Már og Ólafur Ólafsson eru sköpunarverk nýfrjálshyggjunnar, þeir eru sjúkdómseinkenni þjófræðisins. Þeir voru eflaust góðir drengir í æsku en þeir eru engum góðir nema sjálfum sér í dag.

Þeir tveir eru dæmigerðir þjófar innan þjófræðisins.

En hvað kemur þetta Póstinum við? Í fyrndinni var póstkerfið búið til svo hægt væri að byggja upp betra samfélag. Þetta var sameiginlegt verkefni samfélagsins til að komast frá einni stöðu yfir á þá næstu. Ef fólk hefði beðið þess að Þorsteinn Már og Ólafur Ólafsson þess tíma hefðu séð sér hag af því að byggja upp póstþjónustu þá hefði hún aldrei orðið. Þessir tveir, eins og svo til allt ríkt fólk, býr ekkert til heldur kemst yfir eignir annarra og rekstur. Auður Þorsteins á upptök sín í gjöf Sjálfstæðisflokksfólk í Hafnarfirði, sem réttu honum og félögum hans Bæjarútgerð Hafnarfjarðar á spottprís. Ólafur Ólafsson varð auðugur á að sölsa undir sig eignum samvinnuhreyfingarinnar. Þeir tveir eru dæmigerðir þjófar innan þjófræðisins, óligarkar sem auðguðust á almannaeignum sem höfðu orðið til innan sveitarfélaga, samvinnufélaga eða hjá ríkisvaldinu. Ríkisskip var lagt niður á upphafsárum nýfrjálshyggjutímans svo Eimskip og Samskip gætu náð viðskiptum fyrirtækisins til sín.

Það er sem sé engin leið til að gott samfélag verði til að grunni persónulegra hagsmuna Þorsteins Más og Ólafs Ólafssonar. Gott samfélag verður aðeins til með því að við hefjum aftur samtal um hvers konar samfélag við viljum byggja upp, hvort við viljum ýta undir annað en hin fáu stóru, ríku og valdamiklu. Viljum við til dæmis styðja þá bændur, sem dregið hafa til sín vinnslu afurðanna frá stóru matariðnfyrirtækjum sem þjóna stórmörkuðum? Og þar með þá neytendur sem svo gjarnan vilja kaupa af bændunum? Viljum við styðja fjölbreytileika og nýsköpun? Eða viljum áfram fela hinum stóru öll völd og sætta okkur við fábreytileika, einokun og fákeppni? Og ógnarauð fárra og taumlaust vald en valdaleysi fjöldans?
Leiðin til að byggja upp gott samfélag er að bakka út úr öngstræti nýfrjálshyggjunnar áður en við keyrum á vegginn við enda þess vegar. Liður í því er að endurskapa Póstinn sem samvinnuverkefni með samfélagsleg markmið, grunnstoð til að byggja upp dreifikerfi fyrir smáframleiðendur svo þeir geti byggt upp markað sinn fjarri ógnarvaldi hinna fáu og stóru, sem gína yfir öllu. Pósturinn er þannig ekki gamall hausverkur sem passar illa inn í samtímann, einhæfni nýfrjálshyggjunnar; heldur einn af lyklunum að betri framtíð.

Horfumst í augu við það.

Þótt hér sé bara tekið dæmi af býlisframleiðslu bænda þá þarf allur smárekstur á Póstinum að halda. Hann ætti að reka vöruhús og flutningskerfi sniðið að þörfum smárra fyrirtækja og einyrkja, ýta undir markaði slíkra aðila í raunheimi og á Netinu, sölusamtök smárra, kaupfélög neytenda o.s.frv. Það er aðeins með sköpunarafli fjöldans sem okkur tekst að búa til gott samfélag. Við verðum að vakna upp af þessum vonda draum, sem nýfrjálshyggjan er.

Hverjum datt eiginlega í hug að fela Þorsteini Má og Ólafi Ólafssyni uppbyggingu samskiptakerfis landsins? Kaus þetta einhver? Vorum við blekkt? Var völdunum rænt af okkur?

Já. Horfumst í augu við það. Tökum völdin aftur. Búum til samfélag sem hentar okkur, ekki aðeins þeim.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: