- Advertisement -

Ráðherra vill svæfa fátæktina

Félagsmálaráðherra leggur til skoðanir á stöðu fátækra og einkum stöðu barna. Þingmaður Pírata segir ríka sannfærða um eigið ágæti en fátækir kennir sér um stöðu sína. Fólki bjóðist hins vegar ólík tækifæri.

Halldóra Mogensen: „Fátækt er ekki skömm einstaklingsins sem lifir við hana, hún er skömm samfélagsins og stjórnmálafólks sem viðheldur henni.“

Fréttaljós Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra telur að skoða verði stöðu örorkulífeyrisþega, vaxtabótakerfið, barnabótakerfið og fleiri þætti. „Þar þarf að fara fram vinna þvert á málaflokka,“ sagði ráðherrann meðal annars á Alþingi í gær. Halda má, er mark er tekið af orðum ráðherrans, að ekkert hafi verið skoðað í málaflokknum né rannsakað.

Fátækt er skömm samfélagsins

Verið var að ræða stöðu fátækra. Inga Sædal, formaður Flokks fólksins, var upphafsmaður umræðunnar. Formaður velferðarnefndar þingsins, Halldóra Mogensen Pírati, var með gott innlegg í umræðuna. Hún sagði meðal annars:

„Hinir ríku sannfæra sig um að þeir hafi eignast peninga sína vegna verðleika sinna og hunsa tækifærin sem þeir höfðu fram yfir aðra, svo sem menntun, efnahag og umhyggjugetu foreldra sinna. Fátækt fólk byrjar að kenna sjálfu sér um mistök sín þrátt fyrir að hafa litla stjórn á aðstæðum sínum og litla möguleika á að sækja sér þau tækifæri sem þörf er á til að betrumbæta líf sitt. Fátækt er einkenni skaðlegrar hugmyndafræði. Við upprætum ekki fátækt án þess að bera kennsl á og tækla undirliggjandi mein. Fátækt er ekki skömm einstaklingsins sem lifir við hana, hún er skömm samfélagsins og stjórnmálafólks sem viðheldur henni.“

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra: „Þar þarf að fara fram vinna þvert á málaflokka.“

Hinn rólegi ráðherra

Ásmundur Einar félagsmálaráðherra vill fara varlega. „Þar þarf að skoða m.a. stöðu örorkulífeyrisþega, vaxtabótakerfið, barnabótakerfið og fleiri þætti,“ sagði hann.

„Síðan er það staða barna almennt, sem ég held að sé miklu víðtækara og stærri spurningar sem við þurfum að spyrja okkur þar. Þar þarf að fara fram vinna þvert á málaflokka. Þar tengjast inn í til að mynda menntamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, sveitarfélög og fleiri aðilar. Þar eigum við ekki einungis að taka undir stöðu barna sem búa við fátækt heldur barna sem búa við félagslega erfiðleika af fleiri orsökum en vegna fátæktar.“

Sér margar hindranir

Ljóst er að ráðherra félagsmála sér margar hindranir á veginum og langt er þar til unnið verði markvisst að lausn á fátækra á Íslandi. Hið minnsta ef mið er tekið af hversu mikið ráðherrann vill ræða og skoða. Hann talar einsog hann vilji svæfa umræðuna. Hið minnsta tefja hana einsog kostur er.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: