- Advertisement -

Seðlabankastjórinn og ís í brauði

Jón Örn Marinósson lét hugann reika:

Jón Örn Marinsson.

Núna, í blíðviðrinu á þessum föstudagsmorgni, velti ég því fyrir mér hvort ég eigi eftir að venjast því að seðlabankastjóri sé með rauðbirkið skegg. Ég man ekki eftir því að íslenskir seðlabankastjórar hafi verið með skegg; skeggvaxinn seðlabankastjóri á væntanlega að vera til marks um nýja tíma undir stjórn Vinstri-grænna og samherja þeirra í Sjálfstæðisflokknum. Má því vera að skeggið hafi ráðið úrslitum í hinu erfiða vali sem forsætisráðherra stóð frammi fyrir. Sjálfur var ég fyrir margt löngu með skegg; ekki vegna þess að ég sæi fyrir mér að ég færi einhvern tíma að sækja um stöðu seðlabankastjóra heldur eingöngu vegna þess að ég gekk með þá grillu að skeggið gerði mig kynþokkafyllri og jafnvel ábúðarmeiri. Ekki fann ég merkjanlegar breytingar í þá veru nema síður væri. Hins vegar þótti mér afleitt hvað mér reyndist erfitt að borða ís úr brauðformi með allan þennan hárvöxt í kringum munnopið. Eftir tvö og hálft íslaus ár lét ég því skeggið lönd og leið. Síðan þá hef ég getað notið þess – eins og fráfarandi seðlabankastjóri geri ég ráð fyrir – að borða ís úr brauðformi. Má hins vegar fullyrða að nýi seðlabankastjórinn mun borða ís eingöngu úr pappaformi þar sem hann stendur vörð um stöðugleikann og meint ágæti hinnar íslensku útgáfu af kapítalisma.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: