- Advertisement -

Silfurskottur og rottugangur á Landakoti

Það er pólitísk ákvörðun, ákvörðun stjórnmálamanna. Þar liggur ábyrgðin.

„…þar er rottugangur og oft flæðir upp úr þeim bæði á baðherberginu á dagdeildinni í L-byggingunni og í eldhúsaðstöðu í K-byggingunni. Silfurskottur hafa verið viðvarandi vandamál og eitrað fyrir þeim af og til,“ segir í skrifum konu sem starfar á Landakoti.

Hún skrifar: „Einar Þorsteinsson reyndi mikið nú í Kastljósi að sauma að Má Kristjánssyni yfirlækni sýkingavarna og gat ég ekki skilið hann öðru vísi en við ættum helst öll starfsfólk á Landakoti að ganga með hauspoka það sem eftir er ævinnar.  Landakot er algerlega óhæft til að sinna þar gömlu sjúku fólki. Það hefur lengi verið vitað. Húsið er gamalt og í niðurníðslu til margra ára af viðhaldsleysi. Líklega eru öll holræsi undir húsinu meir og minna brotin og lek.“

„Sveppasýking hefur einnig verið mikil víða í húsinu,“ skrifar konan.

Við eigum að leggjast á hnén og biðjast vægðar, biðja þjóðina afsökunar.

„Á legudeildum þar sem liggja 16 – 21 sjúklingur eru eitt til tvö baðherbergi , og/eða 2-3 salerni.  Það hefur verið troðið inn á deildirnar þannig að jafnvel 3 hafa deilt herbergi. Starfsfólk hefur verið skorið við nögl, bæði vegna sparnaðar og manneklu. Tæki og tól hafa verið samnýtt vegna sparnaðar. Endurhæfingaraðstaða er þröng og erfið. Þessu má þakka yfirvöldum, stjórnmálamönnum sem alltaf hefur fundist það sjálfsagt að spara í öldrunarþjónustunni.

Þrátt fyrir „fráflæðisvanda“ LSH hefur hverri öldrunardeildinni á fætur annarri verið lokað til að spara, en alltaf þurft að opna þær aftur í einhverri mynd skömmu seinna. Því má þakka misvitrum ráðamönnum þjóðarinnar hverju sinni. Þeir hafa skorið upp og skeytt saman þessari þjónustu öllum til ama og eyðileggingar í gegnum árin,“ skrifar konan og er ósátt eftir Kastljósþátt gærkvöldsins:

„Nú þegar starfsfólkið er að niðurlotum komið í þessu veirufári kemur fréttamaðurinn  Einar Þorsteinsson og af fáfræði og fréttaæsingi saumar hann að okkur starfólkinu sem stöndum í framlínunni, með grímur, gleraugu, plasthanska og í hlífðarsloppum allan vinnutímann, skiptandi á múnderingunni í hvert skipti sem við sinnum nýjum sjúklingi. Við eigum að leggjast á hnén og biðjast vægðar, biðja þjóðina afsökunar. Yfirmenn Landspítalans hafa þurft að skera niður þjónustu spítalans á hverju ári vegna fjárþurrðar. Það er pólitísk ákvörðun, ákvörðun stjórnmálamanna. Þar liggur ábyrgðin.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: