- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn á fleygiferð

Gunnar Smári skrifar:

Gunnar Smári.

Sjálfstæðisflokkurinn er kominn á fullt í að nýta tækifærið til að lækka skatta á fyrirtækið. Gistináttagjald er 300 kr. sem ferðamenn borga fyrir hverja nótt. Miðað við tveggja manna herbergi fyrir 20 þús. kr. eru það 300 kr. eða 1,5%. 20 þús. kr. herbergi var um 149 evrur í haust en eru nú 133 evrur., hefur því lækkað um meira en 10% í evrum talið. Ef herbergið var selt á 150 evrur með sköttum voru það um 17.920 sem hótelið fékk eftir vsk og gistináttagjald en 19.930 kr. í dag, eða rúmum 2 þús. kr. meira, ígildi rúmlega 11% hækkunar. Hótelin ættu því að geta hækkað verð á herbergjunum um meira en sem nemur gistináttagjaldinu vegna lækkunar krónunnar. Efnahagserfiðleikarnir fella gengið og það skapar tækifæri fyrir hótel og gistiheimili til að fá fleiri krónur fyrir herbergin og halda áfram að innheimta gistináttagjald, sem fara á til að borga fyrir álag af ferðamönnum á grunnkerfi samfélagsins, t.d. heilbrigðiskerfið.

Það má leggja á eignaskatta.

Tryggingargjald fer meðal annars til að greiða fyrir atvinnuleysisbætur. Það var 8,65% á launagreiðslur í atvinnuleysinu eftir Hrun en er nú 6,35%. Með vaxandi atvinnuleysi vegna færri ferðamanna og efnahagssamdráttar er ljóst að styrkja þarf tryggingargjaldið, frekar en að veikja það.

En það má færa rök fyrir því að tryggingargjaldið ýti undir að fyrirtæki fækki fólki. En ef afnema ætti það eða lækka mætti sækja skatta sem engin áhrif hafa á getu fyrirtækja til að borga laun. Það mætti hækka tekjuskatt fyrirtækja, sem leggst á hreinan hagnað, eða fjármagnstekjuskatt, sem leggst á það fé sem fjármagnseigendur draga upp úr fyrirtækjum í formi arðs, leigu eða vaxta. Það má leggja á eignaskatta, en þeir voru afnumdir á nýfrjálshyggjuárunum eftir að hafa verið mikilvæg tekjuöflun hins opinbera frá því á elleftu öld.

Allar fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar benda því miður allar til þess að Sjálfstæðisflokksmenn ætla að nota þetta áfall til að lækka skatta á fyrirtæki og skerða tekjuöflunarkerfi ríkisins, skilja meira fé eftir í höndum hinna ríku til að styrkja auð þeirra og völd. Það er ætíð markmið auðvaldsins og sendisveina þess þegar kreppir að; markmiðið er að safna eignum og völdum að æ færri.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: