
Sigurjón Þórðarson alþingismaður:
Það örlaði ekki á því í ræðu Bjarna eða þeirra sem eru komnir í brúnna og hafa tekið við stýrinu.
Það var að mörgu leyti undarlegt að hlýða á Bjarna Ben flytja sína lokaræðu sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Það fór nákvæmlega ekkert fyrir sjálfsgagnrýni, en kjósendur höfnuðu vinnubrögðum og stefnu Sjálfstæðisflokksins í síðustu Alþingiskosningum. Það var greinilegt að Flokkur fólksins var efst í huga Bjarna og þá sérstaklega Inga, Sigurjón digri og Eyjólfur og vildi hann kenna okkur um ófarir Sjálfstæðisflokksins.
Það er skiljanlegt upp að vissu marki þar sem Flokkur fólksins talar með skýrum hætti til þeirra hópa sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur skilið eftir á köldum klaka t.d. smábátasjómenn, eldri borgara, bænda, öryrkja, iðnaðarmanna og leigubílstjóra ofl. ofl. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði raunverulega stækka og ná víðari skírskotun og hætta að vera aumt amboð fyrir auðmenn og SFS, þá leitaði flokkurinn eftir tækifærum til þess að ná til fyrrgreindra hópa.
Það örlaði ekki á því í ræðu Bjarna eða þeirra sem eru komnir í brúnna og hafa tekið við stýrinu. Það ætti að vera augljóst fyrir hvern meðalgreindan mann þó svo að hann hafi fengið sitt uppeldi í Sjálfstæðisflokknum að það sé ekki hundrað í hættunni þó svo að takmarkaðar handfæraveiðar séu gefnar frjálsar á einum auðugustu fiskimiðum heimsins.
…þá neitar forysta Sjálfstæðisflokksins…
Ef farið er yfir söguna þá kemur það í ljós að veiðin á þorski á Íslandsmiðum var 60% meiri fyrir 100 árum en hún er nú. Það er sama hvar er borið niður í núverandi stjórnun fiskveiða, áætlanabúskapurinn í hafinu er ekki að ganga upp. Engu að síður þá neitar forysta Sjálfstæðisflokksins að fara yfir skýrar röksemdir um að hægt sé að gera betur og ná meiru út úr fiskveiðiauðlind þjóðarinnar.
Sama á við um að bæta kjör kjör lífeyrisþega og eldri borgara. Hvers vegna hræðist Sjálfstæðisflokkurinn frelsið til fiskveiða og segir það vera poppúlískt og bætt kjör öryrkja – er það vegna þess að flokkurinn er fyrst og fremst flokkur auðmanna sem gefur lítið fyrir hag almennings og litla mannsins?