- Advertisement -

Skattskráin verði opin á netinu

- og verði aðgengileg þar allt árið. „Einnig skal á það bent að fátt er áhrifaríkara til að hamla gegn lögbrotum og spillingu en gagnsæi og greið upplýsingagjöf.“

Flestir þingmenn Vg hafa lagt fram tillögu á þingi um að hætt verði að prenta skattskrána og hún verði þess í stað birt á netinu og verði opin þar allt árið.

„Hér er lagt til að hætt verði að birta álagningarskrá skattyfirvalda á pappír eins og gert hefur verið um áratuga skeið en í stað hennar komi rafræn álagningarskrá sem verði aðgengileg allt árið með skilmálum sem um notkun hennar kunna að gilda. Að mati flutningsmanna samræmist þessi skipan, ef hún kemst á, betur en núverandi framkvæmd laga um tekjuskatt þar sem segir að skattskrá skuli vera til sýnis „á hentugum stað“ í tvær vikur eftir að álagningu er lokið. Skattskil eru nú öll orðin rafræn þannig að eðlilegt hlýtur að teljast að birta álagningarskrá með þeim hætti, enda langtum hentugra fyrir bæði skattyfirvöld og notendur álagningarskrárinnar að hafa þennan hátt á með tilliti til þeirrar tækni sem nú er almennt beitt,“ segir meðal annars í greinagerð með tillögunni.

„Skattgreiðslur – undirstaða velferðarkerfisins – eru ekki einkamál greiðanda heldur lögbundin samfélagsleg skylda. Af þessum sökum er rétt að líta á upplýsingar um álagða skatta sem opinber gögn og er sú raunin hvarvetna á Norðurlöndum nema í Danmörku þar sem ekki er veitt vitneskja um álagða skatta á einstaklinga. Einnig skal á það bent að fátt er áhrifaríkara til að hamla gegn lögbrotum og spillingu en gagnsæi og greið upplýsingagjöf. Er birting álagningarskrár þannig mikilvægur hluti upplýsingagjafar um samfélagsmálefni sem varðar almenning miklu og eykur í senn umræðu um skattamál og veitir aðhald í þeim efnum.“

Flutningsmenn eru Andrés Ingi Jónsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Ólafur Þór Gunnarsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, og Steinunn Þóra Árnadóttir. Það er allur þingflokkur Vg að undanskildum Katrínu Jakobsdóttur, Svandísi Svavarsdóttur og Ara Trausta Guðmundssyni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: