- Advertisement -

Slá skjaldborg um nauðgara og níðinga

Kannski er þingmaðurinn að misskilja, sagði ráðherra. Ég er ekki að misskilja neitt, svaraði þingmaðurinn.

Þórhildur Sunna: „Bara hætta að birta nöfn allra sakamanna á Íslandi.“

„Ég veit varla hvar ég á að byrja, þetta er svo skelfilegt frumvarp. Með því er lagt til að hætt verði að birta dóma sem varða tiltekin viðfangsefni. Meðal þeirra eru kynferðisbrot og með samþykkt frumvarpsins yrði því allri opinberri birtingu á dómum sem varða kynferðisbrot hætt.“

Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir Pírati á Alþingi í dag um frumvarp dómsmálaráðherra.

„Sömuleiðis segir í frumvarpinu að í dómum og úrskurðum í sakamálum skuli gæta nafnleyndar um þá sem þar eru greindir; sem sagt að nafn allra brotamanna á Íslandi, samkvæmt frumvarpinu, skuli fara leynt. Hvernig þetta frumvarp komst út úr dómsmálaráðuneytinu, með alla þá lögfræðinga sem eru þar, er mér gjörsamlega fyrirmunað að skilja.“

Og svo er spurt: „Í hverra þágu á að leggja upp í þessa vegferð? Ég fæ ekki betur séð en ætlunin sé að slá skjaldborg um nauðgara og níðinga þessa lands á skjön við stjórnarskrá og grunnreglur réttarríkisins.“

Sigríður Á. Andersen svaraði: „Það kann að vera á háttvirtur þingmaður misskilji nú eitthvað frumvarpið. Með þessu frumvarpi er ekki verið að leggja til jafn veigamiklar breytingar og mér heyrðist háttvirtur þingmaður reifa hér. Það er þannig í dag að í tilteknum málum í nokkuð mörgum málaflokkum eru héraðsdómar ekki birtir. Hér er verið að leggja til að bætt verði við í nokkrum viðkvæmum málaflokkum. Þá er einnig verið að leggja til að dómar séu nafnhreinsaðir í meira mæli en nú er gert. Það er vissulega mikilvæg breyting.“

Þórhildur Sunna, svaraði: „Ég er ekkert að misskilja þetta frumvarp. Það kemur mjög skýrt fram í því að hætt skuli að nefna nöfn í öllum dómum er varða sakamál. Bara hætta að birta nöfn allra sakamanna á Íslandi.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: