- Advertisement -

Í Vöðlavík: Þetta voru ógurleg átök

Ómar Sigtryggsson var vélstjóri á björgunarskipinu Goðanum þegar skipið fórst í Vöðlavík, þegar freista átti þess að draga að bátinn Bergvík af strandstað. Skömmu eftir slysið, snemma árs 1994, birti Sjómannablaðið Víkingur viðtal við Ómar um slysið. Ómar er látinn. Viðtalið er hér í heild sinni.

„Ég var á vaktinni niðri í vélarrúmi þegar fyrra brotið skall á skipinu, við það brotnuðu gluggarnir í brúnni bakborðsmegin og skipið myrkvaðist. Skömmu seinna kom annað brot og við það kom meiri sjór í vélarrúmið og talsverður sjór kom á rafmagnstöfluna, sem sló út með það sama. Eins komst sjór á rafalinn, sem sprakk við það. Á honum voru fimmtán reimar, sem allar tættust í sundur. Þá ákváðum við að koma okkur upp í klefa tii Kristjáns, en þangað voru strákarnir komnir.“

Þannig lýsti Ómar Sigtryggsson, vélstjóri á Goðanum, því þegar skipið varð fyrir áföllunum í Vaðlavík. Ómar hélt áfram: „Við klæddum okkur í galla og biðum rólegir uppi. Rúðurnar í klefanum brotnuðu og því komst sjór inn. Við reyndum að láta bekk fyrir götin og við það dró aðeins úr sjóganginum inn í klefann. Við gátum verið í klefanum í þó nokkurn tíma og gallarnir héldu á okkur hita, þannig að okkur leið alveg ágætlega.“

Urðum að yfirgefa skipstjóraklefann

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Hurðin að skipstjóraklefanum gaf sig undan sjónum, hún kom inn með karmi og öllu saman. Þá ákvað Kristján Sveinsson skipstjóri að réttast væri fyrir okkur að yfirgefa klefann og fara upp á brúarþak. Hvað sem á gekk hélt Kristján skipstjóri ró sinni. Það vildi svo undarlega til, að þegar við vorum að fara upp á brúarþak var eins og það lægði stundarkorn, en um leið og allir voru komnir upp byrjaði sami hamagangurinn. Ég batt mig strax niður með félagalínunni á björgunargallanum, en eftir að Kristján tók næstum út fyrir, í einu brotinu, þá bundu hinir sig líka. Þetta voru ógurleg átök sem skelltu okkur til og frá og sviptu undan okkur fótunum án þess að við fengjum nokkuð að gert, ölduhæðin var allt að tíu metrar og þunginn gífurlegur. Ef félagalínurnar hefðu ekki verið svona sterkar væri enginn okkar til frásagnar, það fullyrði ég.“

Strákarnir í landi gátu ekkert gert

Voruð þið farnir að örvænta um björgun?

„Auðvitað vonaðist maður eftir björgun, en það gat enginn gert neitt; strákarnir í landi gerðu allt sem í þeirra valdi stóð, en gátu bara ekkert gert. Við vorum eiginlega farnir í að vorkenna þeim meira en okkur að þurfa að horfast í augu við þetta og geta ekkert gert. Ég var farinn að hugsa um hvort ég ætti að reyna að sæta færi með að komast í land sjálfur, láta mig bara vaða í sjóinn. Sem betur fer gerði ég það ekki. Varnarliðið bjargaði okkur síðan frækilega eins og frægt er orðið.“

Hefðuð þið ekki bjargast án björgunargallanna?

„Nei, við hefðum aldrei átt möguleika án þeirra. Bæði héldu þeir á okkur hita og félagalínurnar gerðu okkur kleift að binda okkur fasta. Það skipti sköpum, því við hefðum aldrei tollað um borð án þeirra. Gallarnir sem voru um borð voru þýskir og félagalínan á þeim er sérstaklega sterk. Auðvitað hefðu gallarnir getað verið betri, til dæmis voru vettlingarnir á nokkrum þeirra röngu megin. Það hafði ekki verið leiðrétt þegar gallarnir voru skoðaðir og auðvitað má um margt bæta þessa galla.“

Öflugar línur í stað skóreima

Hefurðu kynnt þér þessi gallamál eitthvað betur?

„Já, það hef ég gert, en við litlar undirtektir. Ég þvældist fram og til baka, talaði meðal annars við þá hjá Siglingamálastofnun bæði um vettlingana og félagalínuna. Ég vil fá það í gegn að á þessa galla sem eru notaðir verði settar öflugar félagalínur en ekki þessar skóreimar eins og tíðkast. Það eru á markaðinum tvær tegundir flotgalla sem ég tel bestar, Viking og Helly Hansen, sérstaklega Vikinggallinn, hann er mjög góður nema það vantar sterka félagalínu og það er ekkert mál að bæta úr því. Það eina sem Siglingamálastofnun gerði var að senda bréf til þeirra sem yfirfara gallana um að skoða vel vettlingana. Þetta finnst mér algjört ábyrgðarleysi því þarna kom ég til og gat miðlað af reynslu minni – reynslu frá erfiðum aðstæðum – en fæ engin viðbrögð við því. Það væri lítið mál fyrir þá að kalla inn nokkra galla í einu og láta setja þessa línu á og kostnaðurinn yrði ekki mikill. Mér finnst það alveg grátlegt ef Siglingamálastofnun er farin að virka eins og flöskuháls þegar öryggismál eru annars vegar. Hvað er til dæmis langt síðan málið með björgunarbátagálgana kom inn til þeirra? Það hefur ekkert komið út úr því ennþá. Það vinnur þarna fjöldi manns, en það er eins og maður komi inn á vaxmyndasafn þegar maður ætlar að fá eitthvað gert. Það eru ágætismenn þarna inn á milli en það virðist alltof margt lognast út af hjá þessari stofnun. Ég er samt ákveðinn í að halda þessu til streitu og læt þá ekki komast upp með að svæfa málið. Það er margt sem mætti betur fara í öryggismálum sjómanna hér við land og þá má auðvitað minnast á þyrlukaupin, en það er eins og allt snúist um pólitfk en ekki mannslífin sem ætlunin er að bjarga.“

Ganga út á að finna sökudólg

Hvað finnst þér um viðbrögð yfirvalda eftir slysið?

„Það er undarleg framkoma við sjómenn, sem lenda í álíka atburðum. Við vorum til dæmis drifnir í skýrslutöku daginn eftir slysið. Það er alltof snemmt, við verðum að fá að jafna okkur aðeins eftir hremmingarnar. Það er eins og þessar yfirheyrslur gangi út á að finna sökudólg. Við fengum að vísu mjög góðan dómara, en við sjóprófin eru menn sem spyrja alveg eins og fífl.“

Ekki fór á milli mála að hér átti Ómar sérstaklega við framkvæmdastjóra Rannsóknarnefndar sjóslysa. „Mér finnst líka óafsakanlegt að ætlast til þess að við ljúkum öllum þessum málum áður en við fáum að sjá fjölskyldurnar okkar, það er alltaf hægt að hafa þessi próf og það hlýtur að vera betra fyrir alla að menn séu aðeins búnir að ná sér eftir áfallið þegar þau fara fram. Sem betur fer náðist það í gegn að hafa sjóréttinn fyrir sunnan en ekki fyrir austan, eins og staðaryfirvöld vildu.“

Erum misharðir af okkur

Fenguð þið einhverja aðstoð við að komast yfir áfallið

„Okkur var öllum boðin aðstoð og þeir sem hana þáðu sögðu að hún hefði hjálpað þeim mikið. Það komu bæði læknir og prestur sem töluðu við þá sem vildu. Eg held það hafi gert þeim mjög gott. Það er misjafnt hvernig menn eru undir svona áföll búnir og við erum misharðir af okkur í þessum málum.“

Aðeins bætt að litlum hluta

Nú urðuð þið einnig fyrir fjárhagslegu tjóni, fenguð þið það bætt?

„Nei, það vantaði þó nokkuð upp á að það væri bætt til fulls. Ég hef það fyrir vana að taka mikið af fatnaði og öðru með mér, en það fór auðvitað allt, fatnaður og ýmsir aðrir persónulegir munir. Tryggingafélagið bætti tjónið aðeins að litlum hluta, en Björgunarfélagið lét mig líka fá bætur, án þess í raun að þurfa það. Mér finnst að allar eigur manns ættu að vera tryggðar um borð. Ef það er ekki hægt þá ættu menn að fá að vita hvað þeir fá ekki bætt og gefast kostur á að kaupa tryggingar þess efnis. Þarna tapaði ég um fjörutíu þúsund krónum, sem ekki fengust bættar. Þetta er hlutur sem þarf að stokka alveg upp.“

Ertu ekkert smeykur við sjóinn eftir þessa lífsreynslu?

„Nei, það vona ég að sé ekki. Eg vil í það minnsta láta reyna á það hvort svo sé. Ég hef svo sem heyrt að menn hafi orðið hræddir þegar þeir koma aftur út á sjó eftir slys, sérstaklega ef gerir einhver veður, en ég vona að ég sleppi við það. Þetta er nokkuð sem rnaður kemst að þegar á reynir, “ sagði Ómar Sigtryggsson að lokum.

Kormákur Hermannsson tók viðtalið við Ómar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: