- Advertisement -

SÖGUPERSÓNAN-Járnkanslarinn

Otto von Bismarck hefur tíðum verið nefndur „Járnkanslarinn“ í söguritum. Hann var einn áhrifamesti stjórnmálamaður í Evrópu á ofanverðri 19. öld. og átti meiri þátt í því en nokkur annar að sameina Þýskaland í eitt ríki undir forystu Prússa á árunum 1862-1890.  Hann fæddist í Brandenburg árið 1815 og voru forfeður hans hluti af prússneska landeigendaaðlinum, svonefndum Junkers. Framan af ævi gegndi Bismarck störfum í prússnesku utanríkisþjónustunni en dró sig síðan í hlé og settist að á búgarði sínum. Í stjórnmálaumrótinu á byltingarárinu 1848 birtist hann mönnum sem þröngsýnn prússneskur afturhaldsseggur og varð að flýja föðurland sitt um skeið. Hann sneri þó fljótlega aftur, ávann sér hylli konungs síns og var einn fulltrúa Prússlands á þingi þýsku ríkjanna í Frankfurt am Main 1851. Eftir það varð hann um hríð sendiherra Prússlands í Sankti Pétursborg og síðan í París.

Árið 1862 varð Bismarck forsætisráðherra í Prússlandi og var meginverkefni hans að koma í kring endurbótum á prússneska hernum en þing landsins hafði neitað að samþykkja fjárveitingar til þess. Bismarck kom umbótunum fram og beitti þá aðferð sem hann átti einnig eftir að grípa til síðar, stjórnaði án þess að styðjast við fjárlög. Hann reyndist þegar á fyrstu stjórnarárum sínum í Prússlandi harðskeyttur stjórnmálamaður, raunsær og tækifærissinnaður og hikaði ekki við að beita þeim meðulum sem hann taldi að best myndu duga hverju sinni. Hann einsetti sér að sameina Þýskaland í eitt ríki undir forystu Prússa og skirrðist ekki við að beita hervaldi til þess að ná markmiði sínu. Sameinað Þýskaland skyldi verða voldugasta ríkið á meginlandi Evrópu og taka þá stöðu meðal Evrópuþjóða sem Frakkland hafði svo lengi haft.

Til þess að ná þessu markmiði reyndi Bismarck hvað hann gat til þess að draga úr áhrifum Austurríkis og Habsborgarkeisara meðal þýskumælandi þjóða og á sex ára tímabili, 1864-1870, háðu Prússar þrjár styrjaldir og höfðu ávallt betur. Fyrst unnu þeir Suður-Slésvík, Holtsetaland og Láenburg af Dönum árið 1864, tveimur árum síðar börðust þeir við Austurríki og fleiri þýsk ríki og tryggðu sér með sigri forystuhlutverk meðal Þjóðverja. Loks gjörsigruðu þeir Frakka í fransk-þýska stríðinu árið 1870 og í janúar 1871 var þýska keisaraveldið stofnað í Versölum. Vilhjálmur I varð Þýskalandskeisari og Bismarck kanslari. Þeirri stöðu gegndi hann í nítján ár og reyndi þá eftir megni að tryggja frið á meginlandi Evrópu, enda hefði Þýskaland öðlast þá stöðu sem því bar í samfélagi þjóða. Þetta gerði hann m.a. með því að mynda bandalög og blokkir, hið svonefnda Þriggja keisara bandalag (Dreikaiserbund) milli Þýskalands, Rússlands og Austurríkis-Ungverjalands sem stofnað var til árið 1873 og Þríveldabandalagið milli Þýskalands, Austurríkis og Ítalíu árið 1882. Hann var sannfærður um að Þýskaland ætti að vera mesta stórveldi á meginlandi Evrópu en Þjóðverjar yrðu þó jafnan að gæta þess að heyja aldrei stríð á tveimur vígstöðvum samtímis og mættu aldrei ráðast inn í Rússland. Þeirri kennisetningu gleymdu eftirmenn hans.

Bismarck var hægrisinnaður stjórnmálamaður og sannfærður um að aðli og borgarastétt bæri að fara með völdin. Hann barðist gegn vaxandi verkalýðshreyfingu með því að setja neyðarlög, en beitti sér jafnframt fyrir setningu laga um almannatryggingar, hinum fyrstu í Evrópu. Hann var einarður mótmælandi og lenti í hörðum átökum við kaþólska Þjóðverja í menningarstríðinu svonefnda (Kulturkampf).

Þú gætir haft áhuga á þessum

Árið 1888 tók Vilhjálmur II við keisaradómi af föður sínum. Þeim Bismarck lynti ekki og 1890 vék keisarinn honum úr embætti. Eftir það bjó hann á búgarði sínum, Friedrichshof, í nágrenni Hamborgar þar sem íslenskur lærdómsmaður, Jón Stefánsson, heimsótti hann og tók við hann viðtal sem birtist í Eimreiðinni árið 1895. Mun það vera fyrsta viðtal við erlendan stjórnmálaskörung sem birtist í frumgerð í íslensku tímariti. Bismarck hefur löngum notið mikilla vinsælda meðal Þjóðverja, þótt nokkuð drægi úr þeim eftir síðari heimsstyrjöld. Á síðustu árum, eftir fall Berlínarmúrsins og sameiningu þýsku ríkjanna tveggja, hefur áhugi á sögu hans farið vaxandi á ný.

 

(Birtist áður í Mannlífi árið 2008. Höfundur er Jón Þ. Þór sagnfræðingur).


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: