- Advertisement -

Stjórnarskráin: Alþingi ógnar lýðræðinu

Það gengur ekki upp í lýðræðisríki að þing hunsi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu.

Gunnar Smári skrifar:

Þar sem ég nenni því ekki, óska ég eftir að einhver taki að sér að greina stjórnarskrárfrumvarp stjórnlagaráðs svo hægt sé að sjá fyrir sér næstu skref í málinu.

Fyrst þarf að lesa frumvarpið saman við núgildandi stjórnarskrá og stroka burt það sem er eins. Stjórnarskrárfélagið fullyrðir að um 80% af gömlu stjórnarskránni sé í frumvarpinu. Það er ástæðulaust að láta þær greinar flækjast fyrir.

Hvaða atriði eru þetta?

Næst þarf að lista upp það sem er í frumvarpinu og sem er nú þegar í gildandi lögum eða alþjóðlegum samningum sem Ísland hefur staðfest. Þetta eru réttindi sem almenningur nýtur þegar og áherslur sem eru ríkjandi en höfundar frumvarpsins vilja lyfta upp í stjórnarskrá til að tryggja þau enn frekar.

Þegar þetta er búið standa eftir þau efnislegu atriði í frumvarpinu, fyrir utan inngangsorðin, sem eru ný og færa almenningi (og náttúru) meiri rétt en hann nýtur í dag. Hvaða atriði eru þetta? Umræða um stjórnarskránna ættu að snúast um þau fyrst og fremst. (Vill einhver skjóta þeim hér inn sem komment?)

Ég tók eftir að Katrín Oddsdóttir sagði í Silfrinu á sunnudaginn að frumvarpið væri ekki fullkomið og sjálfsagt væri að laga það og gera betra. Við afgreiðslu málsins má því breyta flestum greinum, ekki þó of mörgum, því niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar frá 2012 segir að ný stjórnarskrá skuli sett sem grundvölluð er á frumvarpi stjórnlagaráðs. Klárlega má laga orðalag, eyða því sem óskýrt er og skerpa annað og svo má breyta einhverju efnislega ef ljóst er að það auki rétt eða nái betur utan um vilja meginþorra almennings.

Það má sem sé breyta flestu en ekki of miklu, frumvarpið er rammi sem verður að halda. Það sem hins vegar má ekki breyta er það sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012. Sem er að:

I. Að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Þingið getur breytt öðrum setningum auðlindakaflans, en ekki þessari.

II. Að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi. Þetta er í andstöðu við frumvarpið, það stóð því atkvæðagreiðsluna ekki af sér að fullu. Þau sem vilja breyta frumvarpinu geta sótt rök í þessa niðurstöðu, að þótt meirihlutinn hafi sagt að frumvarpið ætti að verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár sé ljóst að meirihluti sé ekki fyrir öllum greinum þess.

III. Að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er. Í frumvarpinu er útfærslan á þessu ekki skýr og rúmar margskonar útfærslu.

IV. Að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt. Ákvæði um þetta er skýrt í frumvarpinu: Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Því verður því ekki haggað ef þingið vill ekki ganga gegn tilskipun kjósenda.

V. Að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í frumvarpinu er hlutfallið 10%, sem í dag er um 28 þúsund manns, en spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslunni tiltók ekki hlutfallið. Þingið gæti hnikað þessu til, lækkað eða hækkað í 15% án þess að brjóta gegn niðurstöðunni, en varla meira en það.

Það er ekki hægt í lýðræðisríki.

Með því að taka þessi atriði og svo þau sem eru í núgildandi stjórnarskrá má fækka ágreiningsefnum. Eitthvað af restinni hljóta að vera mál sem þingið er sammála um, margt af því er þegar í lögum eða sáttmálum sem þingið hefur sjálft samþykkt. Ef þjóðin hefur ákveðið að frumvarpið skuli verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár þá hljóta þingmenn að geta kyngt því að þessi ákvæði séu í stjórnarskrá þótt þeir hefðu ekki kosið það sjálfir. Efnislega breytir það ekki miklu. Varla hefur þingið samþykkt þessi atriði í lögum eða sáttmálum til þess að geta fellt þau auðveldlega seinna.

Þá eru eftir þau atriði sem þingið þarf að reyna að ná sátt um. Ef það tekst ekki og nokkur mál standa út af getur þingið sent þau í nýja þjóðaratkvæðagreiðslu til að fá úr þeim skorið. Ef þessi atriði eru of mörg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu stendur þingið frammi fyrir því að það getur ekki farið eftir vilja þjóðarinnar. Þá kemur tvennt til greina. Að þingið leysi sig upp og boði til kosninga svo nýtt þing geti reynt við þessa þraut. Eða að þingið samþykki að setja á fór stjórnlagaþing sem falið verði að vinna frumvarp stjórnlagaráðs áfram og afgreiða það svo hægt sé að leggja það sem nýja stjórnarskrá í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það gengur ekki upp í lýðræðisríki að þing hunsi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því að gera slíkt og setja í gang nýtt ferli með allt öðrum áherslum er þingið að brjóta gegn því sem það á helst að verja; lýðræðið sjálft. Það er þjóðin sem ræður. Ef þingið vill ekki fá skýr fyrirmæli frá þjóðinni þá má það ekki spyrja þjóðina. Þegar það hefur verið gert er ekki aftur snúið. Það er ekki hægt að spyrja og hunsa svo svarið. Það er ekki hægt í lýðræðisríki. Þegar það er gert fellur lýðræðið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: