- Advertisement -

Sveltistefnan hefur kostað mannslíf

Gunnar Smári skrifar:

Vandinn við þetta er að það fólk sem sker niður framlög til heilbrigðismála er ábyrgðarlaust, þótt ljóst sé að sveltistefna þess hafi kostað mannslíf vegna undirmönnunar og seinkunar á endurnýjun húsnæðis (nú síðast á Landakoti). Hins vegar fylgdi það nýfrjálshyggjunni, eins og sveltistefnan, að ákæra starfsfólkið, sem er gert ábyrgt fyrir að hafa ekki veitt rétta þjónustu þótt búið væri að grafa undan forsendum hennar.

Þetta byggir á innbyggðu vantrausti nýfrjálshyggjunnar á fólki sem starfar við opinbera þjónustu. Nýfrjálshyggjuliðið er sannfært um að það sé fyrst og fremst að eyða fé, fara illa með það. Og það trúir að hlutverk þeirra sem skammta féð sé heilagt, að sá sem heldur um budduna hafi ætíð rétt fyrir sér. Ástæðan er að nýfrjálshyggjan byggir á heilagleika fjár, að fjárstreymi sé hin raunverulega virkni allra hluta, að arðsemi sé hinn eini sannleikur og að markmið allrar starfsemi sé að nýta fé sem best. Jafnvel þótt sá með budduna geri aðeins kröfu um sparnað en hafi enga hugmynd um hvernig hægt sé að ná honum fram. Hann getur jafnvel verið stoltur yfir að vita það ekki í krafti þess að hans sannleikur sé æðri, sá sem þekkir peninginn þarf ekki að þekkja neitt annað.

Kerfi sem nýfrjálshyggjuliðið er búið að eyðileggja.

Svona hefur nýfrjálshyggjan ekki aðeins grafið undan stofnunum samfélagsins, grunnkerfunum sem heldur uppi siðuðu samfélagi, heldur hefur þessi alheimska hugmyndastefna náð að mylja sundur fræðin og fagið, inntak allrar vinnu og starfsemi. Þangað til að við erum stödd þar sem hjúkrunarfólk þorir ekki í vinnuna vegna þess að það upplifir sem sakafólk, veit að ef það lokast inn í óbærilegri aðstöðu vegna niðurskurðar og heimsku fjárveitingavaldsins, þá verði því kennt um, ákært og dregið í gegnum niðurlægjandi réttarhöld. Fyrir að hafa mætt til vinnu í kerfi sem nýfrjálshyggjuliðið er búið að eyðileggja.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: