- Advertisement -

Það blikka engin blá ljós

- Guðmundur Ingi spurði Svandísi hvað eigi að gera vegna sjálfsvíga. Tvöfalt fleiri deyja þeirra vegna en farast í umferðarslysum.

Guðmundur Ingi: „Á sama tíma hafa rúmlega helmingi fleiri en farast í bílslysum tekið eigið líf. Ungt fólk í blóma lífsins. Það blikka engin blá ljós.“

„Á síðasta ári urðu 13 banaslys í umferðinni. Þegar banaslys verður í umferðinni þá stoppar öll umferð þar sem banaslysið varð. Kölluð er út rannsóknarnefnd. Blá ljós blikka og vettvangur slyssins er rannsakaður, myndaður, gerð er skýrsla; það er allt undir í þeim eina tilgangi að sjá til þess að ekki verði slys aftur, til að reyna að koma í veg fyrir slys.“

Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á þingi í gær. Og hann bætti við.

„Á sama tíma hafa rúmlega helmingi fleiri en farast í bílslysum tekið eigið líf. Ungt fólk í blóma lífsins. Það blikka engin blá ljós. Hvað gerist þegar einstaklingur sviptir sig lífi? Hvar er rannsóknarteymið? Hverjir fara á staðinn? Hverjir gera skýrslur til að upplýsa aðstandendur? Ekkert, bara skráð.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Á ekkert að gera?

Svo lagði hann spurningu fyrir Svandísi Svavarsdóttur.

„Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Er ekki kominn tími til að við gerum eitthvað í þessu máli; að það skipti ekki máli hvernig fólk deyr, að þessi mál séu rannsökuð til þrautar? Það er ekki eðlilegt að við segjum að það sé allt í lagi að fólk svipti sig lífi, að aðstandendur eigi engin svör að fá og við ætlum bara að yppta öxlum. Ef fólk deyr í umferðarslysum skiptir ástæðan öllu máli, hvers vegna slysið varð og annað, allt rannsakað. Ég vil spyrja ráðherra: Er hann ekki sammála mér í því að við þurfum að fara að rannsaka þetta vel og vendilega?“

Svandís: „Við erum að bæta við sálfræðingum og geðheilsuteymum alls staðar á vettvangi heilsugæslunnar.“

Niðurstaða starfshóps

Svandís svaraði og sagði til að mynda þetta: „Mér var nýlega afhent niðurstaða starfshóps sem fjallaði sérstaklega um aðgerðir sem væru til þess fallnar að stemma stigu við eða draga úr líkum á sjálfsvígum eins og nokkurs er kostur. Sú vinna var leidd af embætti landlæknis og utanumhaldið utan um þá aðgerðaáætlun er þar.“

Hvar á að byrja?

Guðmundur Ingi talaði a ný: „En hvar á að byrja? Framlag til meðferðarsviðs SÁÁ er núna 278 millj. kr. lægra en 2009. Verið er að skera niður ár eftir ár í fjárlögum framlög til hjúkrunarheimila SÁÁ sem er helsti aðilinn sem hjálpar unga fólkinu okkar.

Það gildir alls staðar í kerfinu, meira að segja er Sjálfsbjargarheimilið skorið niður. Verið er að skera niður öll hjúkrunarrými. Á sama tíma er verið að fást við hrun þar sem heilbrigðiskerfið hrundi nærri því. Geðheilbrigðismálin eru algerlega í lamasessi. Það hlýtur að vera númer eitt í forgangi hjá okkur að sjá til þess að auka í þennan málaflokk ef við ætlum að láta fólk trúa því að við séum að gera eitthvað.

Ráðherra vísar á bug

Svandísi var ekki skemmt: „Ég vil segja það hér afar skýrt að við erum að bæta verulega í geðheilbrigðismál á fjárlögum — höfum gert það hingað til, á fjárlögum yfirstandandi árs, og munum gera enn betur á árinu 2019, ekki síst að því er varðar geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og úti um land. Við erum að bæta við sálfræðingum og geðheilsuteymum alls staðar á vettvangi heilsugæslunnar.

Háttvirtur þingmaður nefnir það sem talað hefur verið um af hendi samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem telja sig verða fyrir skerðingu vegna skertra fjárveitinga, en ég vísa þeim yfirlýsingum á bug. Fjárheimildir hafa verið uppreiknaðar árlega, rekstrargrunnur þessara heimila hefur verið styrktur um 1,5 milljarða, þ.e. 6% þegar þessi samningur tók gildi 2016, og heildarútgjöld til daggjaldastofnana voru fyrir gildistöku rammasamningsins 2016 27,2 milljarðar en eru, samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019, 34,7 milljarðar, sem er tæplega 28% hækkun á þessu tímabili.“

Mikill samdráttur í heilbrigðismálum


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: