- Advertisement -

Tryggingasjóðirnir bólgna út

„Við höfum séð þá fara í lúxusíbúðir í Kína eða á Tortólu eða annars staðar og koma til baka sem veð í sundlaug á Álftanesi.“

Guðmundur Ingi:
„Þarna er verið að taka lögþvingaðan og eignarupptökuvarinn sparnað fyrir tryggingafélögin.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, hinn vaxandi þingmaður Flokks fólksins, nýtti tækifæri á Alþingi til að ræða um bótasjóði tryggingafélaganna sem og uppgjörsreglur við slys, sem að hans mati taka allar tillit til tryggingafélaganna, en ekki til þeirra sem slasast.

Hann átti í orðastað við Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.

„En ég vil líka benda henni á að verið er að auka skerðingar úr lífeyrissjóðum, tvo þriðju á að skerða. Hverjir eru það sem fá þessa tvo þriðju úr lífeyrissjóðunum? Það eru tryggingarnar. Hvernig standa tryggingafélögin í dag? Þau eru í samfestingi, þau eru með axlabönd, þau eru með belti til að halda gróðanum uppi, gífurlegum gróða. Og hvaðan fá þau gróðann? Úr bótasjóðum. Hvað er bótasjóður? Jú, það eru bætur sem tryggingafélögin leggja inn í sjóð vegna þess að einstaklingur verður fyrir slysi. Þetta eru sjóðir sem eru aldrei gerðir upp. Þetta eru sjóðir sem bólgna út. Við höfum séð þá fara í lúxusíbúðir í Kína eða á Tortólu eða annars staðar og koma til baka sem veð í sundlaug á Álftanesi. Það er með ólíkindum að svona skuli vera hægt. Þetta er ekkert varið. Ég segi: Eigum við ekki að taka aðeins á þessu og minnka gróða tryggingafélaga og auka bætur til þeirra sem hafa slasast og þurfa á þeim að halda,“ spurði Guðmundur Ingi Kristinsson.

„Ekki myndum við vilja vera án bótasjóðanna vegna þess að þeim er auðvitað ætlað að standa undir háum kröfum um bætur hjá tryggingafélögunum,“ svaraði Sigríður dómsmálaráðherra.

Að hætti Guðmundar leiðir hann okkur um frumskóginn sem bótaþegar ýmiskonar verða að rata í gegnum:

„Það er verið að endurskoða skaðabótalög og í þeim eru enn inni skerðingar gagnvart lífeyrissjóðum og það er verið að auka þær. Ef ég les orðrétt upp úr skaðabótalögum, með leyfi forseta, þá segir um varanlega örorku í 5. gr:

„Jafnframt skal draga frá skaðabótakröfu fjörutíu prósent af reiknuðu eingreiðsluverðmæti örorkulífeyris frá lífeyrissjóði og skal við útreikninginn miðað við 4,5 prósent ársaafvöxtun. Aðrar greiðslur sem tjónþoli fær frá þriðja manni vegna líkamstjóns, svo sem lífeyrissjóði eða vátryggingafélagi, dragast ekki frá skaðabótakröfu.“

Þarna er verið að taka lögþvingaðan og eignarupptökuvarinn sparnað fyrir tryggingafélögin. Síðan er annað í þessu sem er enn verra. Miski sem er líkamlegt tjón viðkomandi — þar er sú undarlega ráðstöfun að uppreiknað er með lánskjaravísitölu, sem enginn notar. Lánskjaravísitölu gefur þeim sem fyrir verður miklum miska ekki neitt. Miska fylgja mjög lágar bætur. Hundrað prósent miski gefur einstaklingi fjórar milljónir króna. Við erum að tala um einstakling sem lamast frá hálsi og niður úr. Bætur þess einstaklings eru uppreiknaðar með lánskjaravísitölu, ekki launavísitölu.

Hvernig stendur á þessu? Er það eðlilegt? Finnst hæstvirtum dómsmálaráðherra þetta eðlilegt? Ætlar hún að breyta þessu? Finnst henni eðlilegt að taka lögþvingaðan og eignarupptökuvarinn sparnað viðkomandi og nota hana fyrir tryggingafélögin sem vita ekki aura sinna tal í góðærinu? Ætlar hún að sjá til þess að þessu verði breytt, að þessi lánskjaravísitala fari út og launavísitala verði notuð þannig að fólkið fái nokkurn veginn réttar bætur?“

Skaðabótalögin eru víst í nefnd til endurskoðunar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: