SFS, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau vara við þeim breytingum sem Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra hefur boðað að gerða verða.
„Íslenskur sjávarútvegur getur og vill áfram leggja ríkulega til samfélagsins, með heilbrigðum rekstri og góðum störfum um allt land, þannig að allir njóti ávaxtanna. Ef rétt verður á spilum haldið má leysa mikla verðmætaaukningu úr læðingi á komandi árum. Því er skorað á stjórnvöld að íhuga að stíga skref til baka og hugleiða hvort fyrirhugaðar breytingar á veiðigjaldi nái þessu mikilvæga markmiði,“ segir í upphafi greinargerðar SFS vegna fyrirhugaðra breytinga á gjaldtöku, eða leiðréttingu, sjávarútvegsins.
Samtökin saka Hönnu Katrínu Friðriksson ráðherra um slælega vinnubrögð. Samtökin hafa gert eigin drög að nýju frumvarpi. Þau saka ríkisstjórnina um að hafa ekki hafa áttað sig á afleiðingum fyrirhugaðra breytinga. Þau segja að auki að fyrirhugaðar breytingar gangi í berhögg við stjórnarskrána.
„Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi sendu í dag atvinnuvegaráðuneytinu athugasemdir við frumvarpsdrög um breytingar á lögum um veiðigjald. Stjórnvöld höfðu í litlu reynt að átta sig á íþyngjandi áhrifum frumvarpsins á afkomu fyrirtækja, fólks og sveitarfélaga víða um land áður en það var birt. Því var brýnt að ráðist yrði í þessa vinnu, þó að hún sé fjarri því að teljast tæmandi á svo skömmum tíma.
Í athugasemdunum eru meðal annars færð fyrir því rök að frumvarpsdrög ráðherra gangi í berhögg við stjórnarskrá. Þá er sýnt fram á að hugtakanotkun ráðherra um leiðréttingu á verðlagningu stenst enga skoðun. Greitt aflaverðmæti til skips hefur um áratugaskeið verið í föstum skorðum og byggst á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs, kjarasamningum og ákvæðum tekjuskattslaga um milliverðlagningu. Verð til skips og uppgjör til sjómanna hafa því verið rétt. Öllum ásökunum um vanmat eða röng verð er því alfarið hafnað.“
SFS segist einnig hafa þungar áhyggjur af afkomu „sjávarbyggða“:
„Í athugasemdunum er einnig sýnt fram á mikla ágalla þess að byggja skattstofn á verðum á uppboðsmörkuðum, hvort heldur hér heima eða í Noregi. Einnig hversu fráleitt það er að leggja að jöfnu þau verðmæti sem verða til í Noregi og á Íslandi í tilfelli uppsjávartegunda. Samtökin vara sérstaklega við því að tekinn verði upp háttur Norðmanna, sem flytja stærstan hluta bolfisks óunninn úr landi. Slíkt mun hafa alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu fólks víða um land og byggðafestu. Samkvæmt greiningu KPMG eru 10 sveitarfélög sem hafa yfir 30% af atvinnutekjum frá fiskveiðum og -vinnslu. Hækkun veiðigjalds kann að auka tekjur ríkisins til skamms tíma, en draga úr mikilvægum tekjum sveitarfélaga sem reiða sig á sjávarútveg.“
Þessi kafli er ekki síst merkilegur fyrir hversu illa útgerðarfélög hafa leikið margar byggðir í landinu með uppkaupum á fiskveiðikvótum.
„Þá er einnig sýnt fram á það að arðsemi eigin fjár í sjávarútvegi er hvorki meiri né minni en í öðrum atvinnugreinum og arðgreiðslur sem hlutfall af hagnaði eru að meðaltali á liðnum árum hlutfallslega lægri en í viðskiptahagkerfinu. Fullyrðingum atvinnuvegaráðherra um að sjávarútvegur „mali gull“ er vísað til föðurhúsanna. Samkvæmt greiningu Jakobsson Capital leiðir boðuð hækkun á veiðigjaldi til þess að verðmæti íslensku sjávarútvegsfyrirtækjanna þriggja, sem eru skráð á markað, lækkar um 53,1 ma.kr. eða rúmlega 13% og ávöxtun lækkar niður í 7,9% hjá arðbærustu félögunum. Slík ávöxtun er ekki langt yfir ávöxtunarkröfu ríkisbréfa. Telur fyrirtækið að áhrifin verði verulegur samdráttur í fjárfestingu, sem svo aftur dragi úr hagvexti. SFS hafa enn til skoðunar áhrif á fleiri sjávarútvegsfyrirtæki, stór sem smá.“