- Advertisement -

Við lifum við lamandi þrælsótta

Gunnar Smári skrifar:

Dómskerfið er spillt og lélegt, það sést á heimsmeti Íslendinga í dómum hjá mannréttindadómstóli Evrópu. Um þetta er ekki deilt.

Ég ætla ekki að heyja liðna kosningabaráttu lengur, en sé að sumt fólk hefur bent á róttæka and-spillingarstefnu flokksins, sem ástæðu þess að Sósíalistaflokkurinn fékk ekki fleiri atkvæði. Einkum þennan kafla í tilboðinu Ráðumst að rótum spillingarinnar: „Styrkja sjálfstæði óvilhallra dómstóla. Ryðja dóma ef þess gerist þörf til að vinda ofan af spillingu liðinna áratuga.“

Þetta ætti ekki að koma neinum á óvart. Það er vel þekkt staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn hefur meira og minna haldið dómsmálaráðuneytinu undanfarna áratugi til að stjórna því hverjir setjast í Hæstarétt og lægri dómstig. Mörg dæmi eru um skipan innvígðra og innmúraðra Sjálfstæðisflokksmanna með þekkt viðhorf þegar kemur að eignarrétti sægreifa á auðlindum hafsins og höfnun á félagslegum réttindum þeirra sem hafa orðið undir óréttlæti þjóðskipulagsins. Dómskerfið er spillt og lélegt, það sést á heimsmeti Íslendinga í dómum hjá mannréttindadómstóli Evrópu. Um þetta er ekki deilt.

En hvað er til ráða. Spyrjum stjórnarskrána. Þar segir í 61. grein: „Dómendur skulu í embættisverkum sínum fara einungis eftir lögunum. Þeim dómendum, sem ekki hafa að auk umboðsstörf á hendi, verður ekki vikið úr embætti nema með dómi, og ekki verða þeir heldur fluttir í annað embætti á móti vilja þeirra, nema þegar svo stendur á, að verið er að koma nýrri skipun á dómstólana.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þarna sést að Alþingi hefur fullan rétt á að setja á nýja skipan dómsmála, eins og Sósíalistar lögðu til. Samt óð uppi fólk sem fullyrti að spillingarvarnir Sósíalista stönguðust á við stjórnarskrá. Það er þvættingur.

Við lifum við lamandi þrælsótta í samfélagi sem auðvaldið hefur beygt undir sig. Allir vita að auðvaldsflokkarnir hafa skipað flokkshesta í dómskerfið til að verja hagsmuni hinna ríku og valdamiklu og gæta þess að hin fátæku og valdalitlu geti ekki sótt þangað réttlæti. Þegar á þetta er bent, stekkur fólk hins vegar upp á nef sér og segir að leiðrétting á þessum órétti og spillingu sé einmitt óréttur og spilling.

Stundum veltir maður fyrir sér hvort Íslandi sé yfir höfuð viðbjargandi.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: