- Advertisement -

Við verðum að verja konur fyrir ofbeldi

Við verðum að rísa upp. Við verðum að vernda þolendur heimilisofbeldis og við þurfum að gera það með afgerandi hætti.

„Fyrstu níu mánuði þessa árs bárust lögreglunni 1.787 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra eða tengdra aðila. Þetta eru tæplega 200 tilkynningar á hverjum einasta mánuði þessa árs. Um er að ræða 12% aukningu samanborið við síðustu ár og hefur fjöldi tilkynninga til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining aldrei verið meiri,“ sagði Helga Vala Helgadóttir.

„Við skulum hafa það í huga, virðulegur forseti og þingheimur, að þetta eru tilkynningarnar. Þetta eru ekki öll málin. Þetta eru bara þau tilvik þar sem brotaþoli treystir sér til að tilkynna málið til lögreglu eða þar sem brotaþoli leitar til heilbrigðisstofnana og tilkynning kemur þaðan. Í 80% tilfella er heimilisofbeldið af völdum karls og í 70% var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um ofbeldi er að ræða milli maka eða fyrrum maka eru 80% árásaraðila karlar og tæplega 80% brotaþola konur,“ sagði hún og svo þetta:

Ísland er ekkert einsdæmi.

„Ísland er ekkert einsdæmi í þessum málum. Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna kemur fram að 45.000 konur hafi á síðasta ári, árið 2021, verið myrtar af einhverjum sér nákomnum, myrtar af maka, fyrrverandi maka eða einhverjum fjölskyldumeðlim. 45.000 konur sem héldu að þeir gætu verið öruggar innan fjögurra veggja heimilisins. Við vorum að tala um 200 tilvik á Íslandi í hverjum mánuði fyrstu níu mánuði ársins. Við verðum að rísa upp. Við verðum að vernda þolendur heimilisofbeldis og við þurfum að gera það með afgerandi hætti. Við verðum að standa upp og verja sérstaklega konur sem eru í yfirgnæfandi meiri hluta þolendur heimilisofbeldis.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: