- Advertisement -

Viðhorf: Hafa frambjóðendurnir ekki áhuga á kosningunum?

Sigurjón M. Egilsson skrifar: Flutti þennan pistil í upphafi þáttarins Sprengisandur á Bylgjunni í morgun. Vegna beiðni set ég hann inn hérna:

Einn og hálfur mánuður er til kosninga. Víða stefnir í sérstök úrslit. Ég leyfi mér núna að horfa einungis til Reykjavíkur. Og er ekki einn um það, eðlilega er mest tekið eftir kosningunum í Reykjavík. Þrátt fyrir andstreymi á landsvísu siglir Samfylkingin nokkuð örugga siglingu, og eflaust þakka flokksmenn persónufylgi Dags B. Eggertssonar hversu vel virðist ganga. Björt framtíð nær eflaust ekki að halda öllu fylgi Besta flokksins, þó það nú væri, segi ég nú bara.

Hvað sem fólki kann að finnast um Jón Gnarr þá hefur hann sýnt að hann er foringi, fæddur til að leiða hóp. Hann lemur ekki í borð, kallar fólk ekki á teppið, öskrar ekki eða ógnar. Reyndar ætti ég að bölva honum, Jón Gnarr hefur tekið ákvörðun um að koma ekki í þennan þátt og það sem meira er, hann hefur einnig tekið ákvörðun um að svara engu, ekki einu sinni með neii, eða nei takki. Samt sýnist mér hann viljugur að koma í allskyns þætti aðra. Þrátt fyrir þessa afstöðu eru mestar líkur á að Sprengisandur lifi af embættistíð borgarstjórans.

Ekki meira kvart eða kvein. Mér þykir Jón Gnarr nefnilega eitt það besta sem hefur komið í íslensk stjórnmál lengi og ég held að áhrifa hans eigi eftir að gæta um langan tíma. Ég held að hann, öðrum mönnum fremur, hafi opnað augu fólks fyrir að stjórnmál og stjórnmálamenn þurfa ekki að vera einsog þeir hafa verið. Að fólk haldi að þeim verði að fylgja,hvert sem er og yfir hvað sem er.

Það eru breytingar í íslenskum stjórnmálum. Þær eru mörgum um megn. Fylgispekt við flokka og fólk hefur stórbreyst, og ég ætla að nefna dæmi um það eftir augnablik, raunverulegt dæmi.

Aftur að borgarstjórnarkosningunum. Merkilegast við núverandi stöðu er að Sjáflstæðisflokkurinn virðist ætla að fá verstu kosningu sem um getur í sögu flokksins. Það var vont fyrir fjórum árum, en virðist ætla að verða mun verra núna. Fyrir fjórum árum varð flokkurinn að berjast við Jón Gnarr og fann enga leið til þess, kannski má segja sem von er. Því fór sem fór.

Verst er fyrir Sjáflstæðisflokinn, að þessu sinni, að frambjóðendurnir virðast hvorki hafa áhuga á flokknum né kosningunum. Þeim til vorkunar verða að nefna að þeir búa við að fyrrverandi allt á Íslandi, sem stýrir nú dagblaði þar sem hann berst um einsog fíll í postulínsbúð og neitar að sættast við breytingarnar sem hafa orðið í stjórnmálunum. Hann þolir ekki Jón Gnarr og heldur meira að segja að hann geti náð honum með húmor. Munurinn er sá að Jón Gnarr er fyndinn, án þess að hafa svo mikið fyrir því. Fyrrverandi var fyndinn. Á þessu er mikill, mikill munur.

Væri Sjálfstæðisflokkurinn svo lánsamur að frambjóðendur hans til borgarstjórnar hefðu minnsta áhuga á kosningunum færu þeir í Hádegismóa og rifu lyklaborðið af fyrrverandi. Það er ekki gott ef áróðursmeistarinn kann bara leik sem allir eru hættir að leika, situr á kvöldin og spilar jatsí meðan þorri almennings er í eveonline eða þaðan af nýrri leikjum og tæknilegri.

Ég hef gert Sjálfstæðisflokkinn að umtalsefni hér og ætla að gera ögn lengur. Mér virðist sem Sjálfstæðisflokkurinn sé að verða eftir, minnir mig á gæa sem er enn með axlarpúða og blásið hár. Það verður að segja kjörinni forystu flokksins það til afsökunar að staða fyrrverandi er forystunni erfið. Hann stýrir jú dagblaði og eflaust eru það hreinar tilviljanir að margt af því sem hann skrifar verður síðan að stefnu forystunnar. Það er óheppilegt og fær fólk til að halda að hann stjórni enn.

Þá sleppi ég takinu á Sjálfstæðisfokknum eitt augnablik og bið ykkur að koma með mér aðeins fimm ár til baka. Þá héldu Framsóknarmenn merka samkomu, kusu ungann formann, ungan mann sem hafði ekki áður verið í flokknum. Þeir gerðu ýmislegt annað á samkomunni þeirri. Þar var eftirfarandi samþykkt:

„Þá setur flokkurinn það skilyrði, að í upphafi viðræðna, það er við Evrópusambandið, verði gerður stöðugleikasamningur við Evrópska seðlabankann sem tryggi stöðugt gengi íslensku krónunnar þar til Íslendingar taka upp evru.“

Þetta var samþykkt á æðsta stað Framsóknarflokksins fyrir aðeins fimm árum, fyrir fimm árum. Vigdís, Guðni og allir hinir voru á samkomunni. En hvað breyttist? Var kannski tekin skagfirsk sveifla á málið og heilum flokki snúið í 180 gráður á einu augabragði? Já, kannski.

Ég held að það sé þetta, það sem ég hef nefnt hér að framan, sem hefur orðið til þess að fólk snýr baki við stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem eru einsog vindhanar.

Og að lokum, til að sýna fram á að þetta snýst ekki um hægri þetta eða hægri hitt, vinstri þetta eða vinstri hitt. Og að fólk er ekki fífl.

Þá bið ég ykkur, sem enn nennið að hlusta, að koma með mér til ársins 1999. Þá bauð Samfylkingin fyrst fram og fékk 26,8 prósent. Mörg okkar muna yfirlýsingarnar, mótvægið við Sjálfstæðisflokkinn, turnarnir tveir og ég veit ekki hvað. Sjálfstæðisflokkurinn fékk þá 40,6 prósent. Samtals fengu Essflokkarnir, það er Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn því 67,5 prósent og 43 þingmenn. Í næstu kosningum fengu þeir samtals 64,7 prósent og 42 þingmenn og svo 63,4 prósent og aftur 43 þingmenn. Margt breyttist við kosningarnar í fyrra og skoðakannanir hafa staðfest það. Það sem hefur breyst, er að samanlagt fylgi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks er nú innan við 40 prósent og þingmennirnir aðeins 28. Á aðeins fimmtán árum hefur þessum tveimur stóru flokkum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki, tekist að tapa öllu því fylgi sem Samfylkingin hafði þegar turnarnir tveir lögðu í vegferðina.

Og með þessa vitneskju er með ólíkindum að fólk haldi að fylgisbreytingarnar séu milli hægri og vinstri. Nei, fólk vill breytingar. Fólk vill ærleg stjórnmál.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: