- Advertisement -

Viljið þið búa við fullkominn barbarisma?

Ríkisstjórnin er því á leiðinni að framlengja launamun og stéttaskiptingu inn í atvinnuleysið.

Gunnar Smári skrifar:
Bjarni Benediktsson, og þar með ríkisstjórnin, vill ekki hækka atvinnuleysisbætur en er til viðræðu um að lengja tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta þannig að fólk sem er með meðallaun eða há laun fái hærri bætur lengur. Ríkisstjórnin vill ekki bæta kjör hinna verst settu en mæta áfalli hinna skár settu.

Rökin eru eflaust þau að fólk sem er með 800 þús. kr. á mánuði sé með skuldbindingar sem myndu hrynja ef það dytti niður í 290 þús. kr. á mánuði, að það fólk verði fyrir meira áfalli en þau sem falla úr 335 þús. kr. niður í 290 þús. kr. (sem eru svipuð rök og þegar Bjarni heldur því fram að þau sem eru atvinnulaus á 290 þús. kr. á mánuði vilji ekki vinna fyrir 335 þús. kr., munurinn er svo lítill að hann er eiginlega ekki neitt neitt).

Ríkisstjórnin er því á leiðinni að framlengja launamun og stéttaskiptingu inn í atvinnuleysið. Atvinnulaus maður sem var í vellaunuðu starfi fær meira en atvinnulaus maður sem var í illa launuðu starfi. Þetta er það sama og gerist með eftirlaunakerfið okkar. Gamall maður sem var í vel launuðu starfi fær góð eftirlaun en maður sem át dauðann úr skel allan sinn starfsaldur gerir það áfram á eftirlaunum, alveg fram á grafarbakkann.

Er ekki elli eitthvað sem leggst jafnt á alla?

Hvað er svona merkilegt með þennan stéttamun vinnumarkaðarins að ríkissjóður (og lífeyrissjóðakerfið) er notaður til að framlengja hann langt inn í atvinnuleysi og eiginlega út að gröf og dauða? Af hverju tryggjum við fólki bara ekki framfærslu svo að atvinnumissir komi fólki ekki á vonarvöl, að örorka komi þér ekki undir hungurmörk og að eftirlaunaárunum sé ekki eitt í fátækt fyrir stóran hóp fólks. Er ábyrgð okkar sem samfélags ekki á framfærslunni fremur en tekjumuninum sem vinnumarkaðurinn bjó til?

Til hvers spyrjum við gamla konu hvað hún hafi haft í laun? Af hverju gefum við henni ekki bara nóg til framfærslu? Og ef einhver er atvinnulaus og getur ekki framfleytt sér, hvað kemur okkur við hvað hann hafði í laun þegar hann hafði vinnu? Er ekki elli eitthvað sem leggst jafnt á alla? Ekki er ellin léttari fyrir erfiðisvinnufólkið sem vann á lægstu laununum. Og ekki er láglaunamaðurinn sem missir vinnu minna svangur en sá sem var á háum launum?

Það er eitthvað alvarlegt að þessum verðmætamati. Ef vinnumarkaðurinn borgar fólki mis há laun þá kemur það sameiginlegum sjóði okkar ekkert við. Út úr sameiginlegum sjóðum eiga allir að fá jafnt. Annað er fullkomlega siðlaust.

Varðandi skuldbindingarnar má setja lög sem frysta lán og skuldbindingar fólks sem ekki hefur atvinnu. Það er eiginlega no brainer. Auðvitað á sá sem missir vinnu að ganga þann daginn inn í greiðsluskjól. Hvers vegna ætti að leyfa lánardrottnum eða leigusölum á ganga að eigum fólks eða henda því út á götu sem hefur enga vinnu og getur þar með ekki varið sig? Viljið þið búa við fullkominn barbarisma?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: