- Advertisement -

Vill að stjórnendur Icelandair víki

Hvernig í veröldinni geta hluthafar, sem í þessu tilfelli eru lífeyrissjóðirnir stærstir, leyft þessu að viðgangast án þess að aðhafast nokkuð?

Ragnar Þór Ingólfsson skrifar:

Það er með hreinum ólíkindum að stjórn og stjórnendur Icelandair fái að stýra félaginu óáreittir í krafti eftirlaunasjóða almennings.

Í ljósi þess að stjórnendur félagsins hafa nær fullt hús stiga þegar kemur að röngum ákvörðunum sem hafa skaðað félagið og stöðu þess undanfarin ár.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Stjórnendur Icelandair starfa óáreittir í skjóli lífeyrissjóðanna sem fara með almannafé og við það getum við ekki unað lengur.

Ber þar að nefna hvernig haldið hefur verið á málum gagnvart Boeing, breytingar á leiðakerfum, kaup félagsins á ríkisflugfélagi Grænhöfðaeyja, viðbrögð við samkeppni á einum mesta uppgangstíma flugsögunnar, klúðrið og spillingin í kringum Lindarvatn sem byggir hótelið á Landsímareitnum og svo ömurlega framkomu stjórnenda og yfirlýsingar í garð starfsfólks.

Þó hægt sé að telja upp mun fleiri atriði má álykta sem svo að lykilfjárfestar vilja vart snerta á félaginu með priki á meðan sömu stjórn og stjórnendum er ætlað að leiða þetta mikilvæga fyrirtæki í gegnum þann ólgusjó sem nú ríkir.

Hvernig í veröldinni geta hluthafar, sem í þessu tilfelli eru lífeyrissjóðirnir stærstir, leyft þessu að viðgangast án þess að aðhafast nokkuð?

Árum saman?

Ég er hræddur um að virkir eigendur og hluthafar í venjulegum fyrirtækjum væru fyrir löngu búnir að grípa inn í og gera nauðsynlegar breytingar ef viðlíka stjórnleysi ríkti og gerir hjá Icelandair.

Stjórnendur Icelandair starfa óáreittir í skjóli lífeyrissjóðanna sem fara með almannafé og við það getum við ekki unað lengur.

Að því sögðu skora ég á lífeyrissjóðina að krefjast hluthafafundar, tafarlaust, og gera nauðsynlegar breytingar á stjórn félagsins svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að bjarga félaginu svo sátt ríki þar um.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka forstjóra Icelandair fyrir að sameina verkalýðshreyfinguna í eina kraftmikla heild sem sækir nú fram sameinuð og aldrei sterkari.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: