- Advertisement -

Villi skilur ekkert í Drífu

„Ég skal fúslega viðurkenna að ég skil ekki orð forseta ASÍ í fréttum á RÚV í gær, um að Lífskjarasamningurinn hafi verðið mjög hófsamir, ég skal hins vegar fúslega viðurkenna að þeir voru hóflegir fyrir tekjuhæstu hópana. Ástæðan var að í Lífskjarasamningum var horfið frá því að semja um prósentuhækkanir í stað þess var eingöngu samið um krónutöluhækkanir og ekki bara það heldur fékk tekjulægsta fólkið á vinnumarkaði hærri krónutöluhækkanir, en fólk sem ekki tekur laun eftir launatöxtum. Ég hef áður sagt og segi enn og aftur að prósentuhækkanir er aflgjafi misskiptingar, óréttlætis og gerir ekkert annað en að auka ójöfnuð á íslenskum vinnumarkaði,“ skrifar Vilhjálmur Birgisson á Akranesi, fyrrverandi varaforseti Alþýðusambandsins.

Hvað rugl er þetta.

Vilhjálmur heldur áfram: „Forseti ASÍ sagði einnig að Lífskjarasamningarnir hafi ekki verið hinir „stóru samningar“ og hluti af þeim var að ef það yrði hagvöxtur þá myndi koma ákveðnar launahækkanir gegn lægri krónutölum. Svo segir forseti ASÍ launafólk sé að taka „skellinn“ í gegnum sína kjarasamninga sem eru í gildi!

Hvað rugl er þetta, og það er eins og forseti ASÍ þekki ekki Lífskjarasamninginn, en þar var samið um hæstu krónutöluhækkanir sem gerðar hafa verið í marga áratugi til handa lágtekjufólki. Öll áhersla í síðustu samningum miðaði að því að stíga þétt og kröftug skref í að lagfæra kjör þeirra sem höllustum fæti standa á íslenskum vinnumarkaði. Það hefur aldrei verið samið um svona krónutöluhækkanir handa tekjulægstu hópunum, en meðaltals hækkun á hverju ári er um 23.000 á ári en frá árinu 2000 hafa lægstu taxtar hækkað núvirt um 15.000 kr. að meðaltali á ári.

Kannski er forseti ASÍ á móti þeirri nálgun!

Þessu til viðbótar var samið um hagvaxtaraukann sem ætti að geta gefið allt að 13.000 kr. til viðbótar þessum krónutöluhækkunum, en vissulega sá enginn fyrir Kórónufaraldurinn og afleiðingarnar sem hann hefði á efnahagskerfið og vinnumarkaðinn í heild sinni.

Lífskjarasamningurinn gerði einnig ráð fyrir að hægt yrði að auka ráðstöfunartekjur launafólks og heimilanna t.d. með því að stýrivextir myndu lækka og gert var ráð fyrir í lífskjarasamningum að þeir myndu lækka um allt að 2% en í dag hafa þeir hins vegar lækkað um 3,5% og eru núna einungis 1%.

Þúsundir heimila hafa endurfjármagnað sig og lækkað greiðslubyrðina hjá sér og það jafnvel um tugi þúsunda á mánuði. Þessu til viðbótar var markmiðið að ná niður verðbólgunni og þegar lífskjarasamningurinn var undirritaður var verðbólgan 3,3% en er í dag 2,5% og hefur því lækkað um 0,8% sem þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna eru 16 milljörðum lægri ef ekki hefði náðst að lækka verðbólguna um þessi 0,8%.

Ég er alls ekki að segja að vinnu við að lagfæra kjör lágtekjufólks sé lokið og það nema síður sé, en það er morgunljóst að lífskjarasamningurinn var jákvætt skref í þeirri lagfæringu og við eigum eftir að taka mörg skef til viðbótar til að lagfæra kjör lágtekjufólks. Þeirri vinnu og baráttu lýkur aldrei en að forseti ASÍ skuli ýja að því að lágtekjufólk sé að taka skell vegna lífkjarasamningsins lýsir yfirgrips mikilli vanþekkingu á innihaldi samningsins, enda byggðist hann á því að fanga tekjulægsta fólkið á íslenskum vinnumarkaði umfram hina tekjuhæstu. Kannski er forseti ASÍ á móti þeirri nálgun!“

Víst er af þessum lestri að djúpur aðskilnaður er í röðum verkalýðsforystunnar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: