- Advertisement -

Viss um sigur svikaranna

- Davíð Oddsson telur hugmyndir ríkisstjórnarinnar, til að uppræta skattsvik, vita vonausar og talar um ofríki ríkisins.

Davíð Oddsson.
„Þeir sem hafa einbeittan brotavilja munu með öðrum orðum finna leiðir framhjá ofríkistilburðum ríkisvaldsins.“

„Það má teljast með miklum ólíkindum að sú ríkisstjórn sem nú situr, og ætti að innihalda flokka og fólk sem aðhyllast frelsi einstaklingsins og frjálslynd lífsviðhorf, skuli hafa uppi áform um að þrengja svo mjög að frelsi fólks til að athafna sig án eftirlits ríkisins,“ segir Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í leiðara dagsins.

Davíð er á stundum gagnrýninn á ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, og svo er enn í dag.

„Ríkisstjórn, jafnvel sú sem telur sjálfsagt að fórna einkalífi alls almennings í þeirri viðleitni að minnka skattsvik, verður líka að átta sig á að þeir sem hafa einbeittan brotavilja þegar að skattsvikum kemur munu stunda þau áfram. Það eru til dæmis til aðrar leiðir til að greiða fyrir vörur og þjónustu en sú að nota lögeyrinn íslenska, sem íslenski fjármálaráðherrann talar nú um að gera ógjaldgengan í verslunum og vill hætta að prenta nema í formi smápeninga. Í ríkjum austan Járntjaldsins, þar sem peningar ríkisins voru lítils virði, urðu sígarettupakkar til að mynda stundum að gjaldmiðli. Gull hefur líka verið notað í þessum tilgangi og erlenda peningaseðla getur íslenska ríkið ekki hætt að prenta. Þá gætu útsjónarsamir menn keypt gjafakort verslana og notað í við- skiptum, nema fjármálaráð- herrann hugsi sér að banna þau líka. Ennfremur geta stórtækir skattsvikarar falið fé í aflandsríkjum og millifært þar, og svo mætti áfram telja.“

Davíð er ekki bjartsýnn á árangur fyrirhugaðra aðgerða.

„Þeir sem hafa einbeittan brotavilja munu með öðrum orðum finna leiðir framhjá ofríkistilburðum ríkisvaldsins. Almenningur, sem ekki hefur gerst sekur um neitt nema að vilja nota seðla í viðskiptum og kærir sig ekki endilega um að hið opinbera fylgist með hverju fótmáli, verður hins vegar fyrir miklum óþægindum sökum ofríkisins,“ segir í leiðara Morgunblaðsins, sem er mun lengri en endurritin hér segja til um.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: