- Advertisement -

Fátækt fólk og Tryggvi Emilsson


En heimurinn er ekki allur þar sem hann er séður.

Hjálmar Sveinsson skrifaði á Facebook:

Ég hjólaði um Fossvogsdal upp í Mjódd á stjórnarfund Strætó. Á bakaleiðinni stoppaði ég við minnismerkið um Tryggva Emilsson í Blesugróf. Ég var að ljúka við að lesa Fátækt fólk. Veit ekki afhverju í ósköpunum ég hafði ekki lesið hana fyrr. Frásögnin af stöðnuðu samfélagi, fátækt, umkomuleysi og réttleysi nístir mann í gegn.

Það sem kom mér þó meira á óvart er nákvæm og andrík lýsing Tryggva á landslagi og náttúru. Lækir, lænur, gil, skörð, skorningar, eggjar, brúnir, rindar, holt, ásar, strá. Frásögnin er bókstaflega kynngimögnuð. Allt er lifandi heild. Holtin og ásarnir allt hafði þá tungu, svo vitnað sé í frægan söngtexta frá svipuðum tíma og bókin kom út. Vakir á frosinni á eru öndunarop hennar og gegnum þær horfir áin til himins. Jörðin stynur í frostum. Stráin, lækirnir og fuglarnir fagna lífinu á vorin. Allur heimurinn fagnar og syngur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

En heimurinn er ekki allur þar sem hann er séður. Fylgjur eru raunverulegar og auðvitað draugar. Ekki er gerð nein tilraun til að skýra þau fyrirbæri út úr heiminum með orðum eins og hjátrú, hindurvitni, forneskja. Ég hlakka til að lesa framhaldið. Tryggvi var frumbýlingur í Blesugróf. Hann byggði sér hús, sem hann kallaði Gilhaga, og bjó þar á árunum 1947 til 1956. Húsið er ekki lengur til en mun hafa staðið á grasbala milli húsanna númer 15 og 17. Þar er heilmikið grenitré í gangstéttinni. Tryggvi gróðursetti það árið 1952, segir á minnismerkinu. Þar er líka áréttað að Reykjavík er bókmenntaborg UNESCO.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: