- Advertisement -

63 milljarða gjafir til fjármagnseigenda

- sem jafngildir um 1/3 af tekjuskatti einstaklinga. Eftirgjöf á sköttum á hin ríku er höfuðástæðan fyrir aukinni skattheimtu á lágar tekjur og lægri meðaltekjur.

Gunnar Smári skrifar: Í nýjasta hefti Tíundar, tímarits ríkisskattstjóra, kemur fram að fjármagnstekjur einstaklinga voru 153,2 milljarðar króna árið 2017 og fjármagnstekjuskattur 27,3 milljarðar eða tæplega 18 prósent. Skattprósentan í fjármagnstekjuskatti var 20 prósent árið 2017 en það er með því allra lægsta í okkar heimshluta, fá lönd gefa fjármagnseigendum jafn mikinn skattaafslátt og Íslendingar. Skattprósentan í tekjuskatti af launatekjum er 36,94% í lægra þrepi en 46,24% í hærra þrepi. Þar sem fjármagnstekjur renna að langstærstum hluta til auðugasta fólksins (tekjur af vöxtum á bankainnistæðum námu aðeins 16,5 milljörðum í fyrra, tæp 11% af fjármagnstekjum) má reikna með að meginþorri fjármagnstekna myndu lenda í efra þrepi tekjuskatts, ef litið væri sömu augum á fjármagnstekjur hinna auðugu og launatekjur venjulegs fólks. Ef við reiknum með að 1/5 fjármagnstekja myndi lenda í neðra þrepi tekjuskattsins en 4/5 í því efra má áætla að ríkið hafi orðið af um 37 milljörðum króna í fyrra. Það er skattaafslátturinn sem stjórnvöld veittu hinum auðugu á árinu 2017, bara vegna fjármagnstekna.

Því til viðbótar þá afnámu stjórnvöld eignaskatta árið 2005. Ef við sleppum innlendum fasteignum og ökutækjum þá voru aðrar eignir einstaklinga (verðbréf, innistæður, hlutabréf o.s.frv.) um 1350 milljarðar króna í árslok 2017, að stærstum hluta eign auðugri hluta þjóðarinnar. Þegar eignaskattar voru lagðir af var hærri skattprósentan 1,95%. Með því að fella hana niður má því reikna með að 26 milljarðar króna hafi verið gefnir auðugum Íslendingum á árinu 2017 í óinnheimtan eignaskatt. Og eflaust er sú tala vanáætluð, þar sem hin auðugu eiga miklar fasteignir þessu til viðbótar.

Samanlagt nemur þetta tvennt, eignaskattar og fjármagnstekjuskattur, því um 63 milljörðum króna skattaeftirgjöf til hinna ríku á árinu 2017. Það jafngildir um 1/3 af tekjuskatti einstaklinga. Eftirgjöf á sköttum á hin ríku er höfuðástæðan fyrir aukinni skattheimtu á lágar tekjur og lægri meðaltekjur. Með því að taka upp aftur skattlagningu á hin ríku mætti leggja niður skattlagningu fátæktar, að leggja skatt á tekjur undir fátæktarmörkum.

Þótt hér sé gróflega reiknað er engum blöðum um það að frétta að stórkostleg eftirgjöf á sköttum á hin ríku á tímum nýfrjálshyggjunnar er undirrót aukinnar skattbyrði almennings, ástæða hrörnunar innviða og velferðarkerfis og stærsta styrkveiting Íslandssögunnar. Eða stærsta rán sögunnar. Það fer eftir hvernig á það er litið.

 

 

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: