- Advertisement -

Ólafur Ragnar er enn á sömu línu

Guðmundur Gunnarsson skrifaði:

Silfrið varð til þess að þessi ræðupartur minn af einu þingi Rafiðnaðarsambandsins rifjaðist upp um Hrunið og umsvif Ólafs Ragnars Grímssonar með hinum svokölluðu útrásarvíkingum og ólígörkum.

Efnahagstefna ríkistjórna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í byrjun þessarar aldar einkenndist af einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Sú stefna, eins og hún var kynnt, átti að draga úr skuldum ríkissjóðs, stuðla að einstaklingssparnaði og auknum viðskiptum með hlutabréf. Sterkum aðilum innan stjórnarflokkanna tókst að hafa þau áhrif á þessa stefnu að hún varð að „einkavinavæðingu“ þar sem fáir útvaldir fengu almenningseignir á afar hagstæðum kjörum. Í einkavæðingarferlinu var þeim meginreglum ekki fylgt sem lagt var upp með í upphafi, heldur löngu viðteknum pólitískum helmingaskiptareglum.

Hagsmunir þjóðarinnar gleymdust og skortur á eftirliti var áberandi. Samfélagsleg gildi sem íslenskt samfélag hafði haft í heiðri voru leyst upp með vaxandi einstaklingshyggju. Ríkisstjórnarflokkarnir höfðu lagt áherslu á að tryggja frelsi einstaklingsins til að velja það sem honum sýndist, án tillits til samfélagsins og afleiðinganna. Allar áherslur miðuðu að sérréttindum þess sem átti fjármagnið. Alið var á mýtum svo hægt væri að þjappa fólki saman undir þessa samfélagskipan. Áhrifaríkustu leiðirnar eru að höfða til trúarbragða og þjóðernishyggju. Alið er á ótta og engu máli skiptir í hugum frjálshyggjumanna hvort mýturnar fela í sér eitthvert sannleikskorn. Þær gegna einungis því hlutverki að stjórna samfélaginu og skara eld að köku fjármagnseigandans.

Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafði á næstliðnum árum fyrir Hrunið haustið 2008 farið ásamt nokkrum ráðherrum víða um heimsbyggðina, m.a. í einkaþotum fjármálamannanna (olígarka), og hrósað íslensku útrásarvíkingunum fyrir áræðni þeirra. Þann dug og kjark sem einkenndi hina íslensku þjóðarsál og gerði Íslendinga svo sérstaka og stæðu framar öðrum þjóðum. Í þessu sambandi er oft vitnað í fræga ræðu Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands „How to succeed in modern business. Lessons from the icelandic voyage“ þar sem hann var á ferð með helstu viðskiptamönnum Íslands að kynna útrásarvíkingana við opnun bækistöðvar Avion Group við Gatwick-flugvöll í Bretlandi þann 24. febrúar 2005. Ólafur Ragnar forseti sagði í lok ræðu sinnar að Avion Group væri einstakt dæmi um afrek á heimsmælikvarða. Afbragðsgóða sönnun á hæfileikum íslenskra athafnamanna og lauk ræðu sinni með orðum sem hann að eigin sögn fékk lánuð frá Hollywood: „You ain’t seen nothing yet.“

Það er fjallað sérstaklega um umsvif Ólafs Ragnars Grímssonar með hinum svokölluðu útrásarvíkingum í Rannsóknarskýrslu Alþingis í löngum kafla (8. bindi, bls. 170-178) um nauðsyn þess að forsetaembættinu væru settar „siðareglur þar sem meðal annars yrðu ákvæði um það með hvaða hætti er eðlilegt að hann veiti viðskiptalífinu stuðning“ Einnig „Þegar horft er til baka yfir þá atburði sem leiddu til hruns í íslensku efnahagslífi vekur þáttur forseta Íslands sérstaka athygli. Þótt stjórnkerfið í heild beri með margvíslegum hætti ábyrgð á því sem gerðist verður ekki hjá því komist að skoða embætti forseta Íslands sérstaklega, svo hart gekk forsetinn fram í þjónustu sinni við útrásina og þá einstaklinga sem þar voru fremstir í flokki.“

Svei mér þá hann er enn á sömu línu.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: