- Advertisement -

77 milljarðar teknir af sveitarfélögunum

Gunnar Smári Egilsson.

Gunnar Smári skrifar: Í fyrra var velta fyrirtækja á Íslandi um 4250 milljónir króna. Með því að afleggja aðstöðugjald seint á síðustu öld voru sveitarfélögin því svipt um 55 milljörðum af tekjum sínum. Þau hafa bætt upp tekjumissinn með því að selja lóðir í stað þess að úthluta þeim (og hækka þar með íbúðaverð), innheimta innviðagjöld (og hækka þar með íbúðaverð), hækka fasteignagjöld (sem leggjast jafnt á skuldir sem eigið fé), hækka útsvar á einstaklinga, safna skuldum og skera niður þjónustu. Þegar aðstöðugjöldin voru aflögð voru þessar afleiðingar ekki kynntar; það var ekki tilgreint að aflagning aðstöðugjalda myndi auka skattbyrði á almenning, auka skuldsetningu sveitarfélaga og skerða þjónustu þeirra. Ekki frekar en þegar skattar á fyrirtæki, fjármagn og hin ríku hafa verið lækkaðir á undanförnum áratugum. Þegar hin ríku vilja taka sér fé úr opinberum sjóðum er ekki spurt um afleiðingar eða útreikninga. Það er bara gert þegar hin fátæku spyrja hvort ekki sé hægt að hætta að skattleggja fólk sem á ekki fyrir mat út mánuðinn, hvort það megi borða síðustu vikuna í mánuðinum í stað þess að borga skattana sem hin ríku hafa komið sér undan.

Árið 2017 voru fjármagnstekjur einstaklinga um 152 milljarðar króna. Öfugt við launatekjur bera fjármagnstekjur ekki útsvar. Sú tilhögun sviptir sveitarfélögin mikilvægum tekjum, margt af auðugasta fólki landsins hefur ekki launatekjur heldur aðeins fjármagnstekjur og borgar því ekki túskilding með gati til síns sveitarfélag, eru þurfalingar sem þiggja alla þjónustu án endurgjalds. Útsvarsleysi fjármagnstekna sviptir sveitarfélögin um 22 milljörðum króna árlega, miðað við tekjur ársins 2017.

Samanlagt tekjutap sveitarfélaganna vegna aðstöðugjaldsins og fjármagnsteknanna er því um 77 milljarðar króna. Ætla má að Reykjavíkurborg eigi um 29 milljarða króna af því. Næst þegar þið undrið ykkur á hvers vegna göturnar eru ekki sópaðar, hvers vegna leikskólar eru ekki fyrir öll börn, hvers vegna útsvarið og fasteignagjöldin og eru svona há, hvers vegna borgin byggir ekki yfir fólk sem hefur orðið fyrir húsnæðiskreppunni og hvers vegna borgin er ekki umgjörð undir betra samfélaga þá er svarið: Vegna þess að við höfum gefið hinum ríku eftir skatta sína. Við erum þannig fólk

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: