- Advertisement -

Gefum ekki efnaðasta fólkinu peninga

Látum í okkur heyra út af svona hugmyndum. Mótmælum.

Ragnar Önundarson skrifar:

Undarlegt var að heyra fjármálaráðherra gefa til kynna á Alþingi, í fréttum St2, að til álita komi að veita fyrirtækjum styrki úr sameiginlegum sjóði almennings. Atvinnurekendur ætla almenningi engan hlut í hagnaði sínum og það verður að fylgja leikreglum markaðsbúskapar í þessari stöðu. Margar ótryggjanlegar áhættur eru alltaf í rekstri og ekkert nema sterk og viðeigandi eiginfjárstaða getur mætt þeim.

Fjárhagur fyrirtækja er misjafn og þ.m.t. keppinauta. Á að endurtaka mistök eftirhrunsáranna og gefa ,,skussunum” peninga, jafnvel í þeim mæli að þeir verði betur staddir en þeir sem standa sig og gæta varúðar og fá af þeim ástæðum engar gjafir? Dæmi voru um slíkt þegar afskrifað var fyrir suma en ekki aðra eftir hrun.

Rétta leiðin er að veita lífvænlegum fyrirtækjum lán, sem umsamið er að breytist i hlutafé, ef lánið endurgreiðist ekki. Í því tilviki færist eldra hlutafé niður, enda verðlaust. Ríkisábyrgð kemur til greina á slík breytanleg lán, enda eignist ríkið þá samsvarandi hlut ef láni verður breytt.

Endurtökum ekki mistök, látum ekki almenning gefa efnaðasta fólki landsins, hluthöfum og fjárfestum peninga. Látum í okkur heyra út af svona hugmyndum. Mótmælum.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: