- Advertisement -

Hringt í ráðherra um miðja nótt

Úr minningum blaðamanns: „Hvíti frakkinn var fráhnepptur og flaksaði í hægum vindinum og undan hröðu og kröftugu göngulagi fjármálaráðherrans.“

Ríkisstjórnin byrjaði fund í Ráðherrabústaðnum síðdegis. Ég beið úti. Beið frétta. Átök voru þar sem ríkisstjórnin tókst á við að loka fjárlögum. Það þurfti að skera niður. Jóhanna var erfiðust.

Fundurinn dróst á langinn. Klukkan varð tíu að kvöldi. Það kom miðnætti. Engin merki um að fundinum væri að ljúka. Það var kalt úti. Dyrnar opnuðust. Elli allsstaðar, sem var ráðsmaður í Ráðherrabústaðnum, bauð mér kaffisopa og stutt spjall. Hann fór aftur inn. Varð að standa sína vakt. Rétt eins og ég mína.

Klukkan varð tvö. Þá loks gengu fyrstu ráðherrarnir af fundinum. Hver af öðrum. Allir sögðu það sama. Þeir máttu ekkert segja um það sem rætt var á hinum langa fundi. Ekki eitt einasta orð.

Ekkert breyttist. Ég heyrði ekki hvað hann hafði sagt. Klukkan var að verða fimm.
Ljósmynd: Brandon Morgan.

Halldór Blöndal svaraði nokkrum spurningum um allt annað. Samt fékkst út úr því ágæt frétt. Svo var komið að aðeins tveir ráðherrar voru enn í Ráðherrabústaðnum. Fjármálaráðherrann Friðrik Sophusson, sem er mér sérlega eftirminnilegur ráðherra, skarpur, ákveðinn, sanngjarn, litríkur og erfiður, og forsætisráðherrann Davíð Oddsson. Klukkan var að verða þrjú að nóttu.

Loks gekk Friðrik út í nóttina. Hann sagði sama og hinir ráðherrarnir. Ekki eitt orð af efni fundarins. Ekki eitt orð. Því miður Sigurjón. Ekki eitt orð. Þar sem ég reyndi og reyndi og Friðrik neitaði og neitaði, kom Davíð að okkur. „Hvað, þú hér um miðja nótt. Hvað ertu að gera,“ sagði Davíð. Ég sagðist vera að vinna.

Davíð gekk til hliðar. Benti Friðriki á að koma til sín. Ég heyrði Davíð segja að þeir gætu ekki gert mér þetta, að segja mér ekki neitt eftir að ég hafði beðið þeirra í marga klukkutíma, sennilega tíu. Þeir ákváðu að Friðrik myndi svara mér um eitt mál. Man ekki lengur hvaða mál það var.

Meðan við töluðum saman hvarf Davíð á brott. Eftir samtal okkar Friðriks gekk hann heim á Bjarkargötuna og ég upp í Þverholt þar sem DV var til húsa. Klukkan var rúmlega fjögur að nóttu. Ég byrjaði á að skrifa frétt úr samtali okkar Halldórs Blöndal.

„Já,“ var sagt. „Hver hringir.“

Að því loknu byrjaði ég að hlusta á samtal okkar Friðriks. Það gekk vel. Þar til að ég gat ekki merkt eitt orðanna. Orð sem gat breytt merkingu þess sem ég var að skrifa. Ég hlustaði aftur og aftur. Ekkert gekk. Ekkert breyttist. Ég heyrði ekki hvað hann hafði sagt. Klukkan var að verða fimm.

Hvað átti ég gera? Ég afréð að hringja heim til Friðriks. Vekja hann. Það hringdi nokkuð lengi. Loks var svarað. „Já,“ var sagt. „Hver hringir.“ Sæll, sagði ég. „Ertu brjálaður að hringja um miðja nótt.“ „Já,“ sagði ég. „Bíddu, ég verð að míga,“ sagði ráðherrann og ég heyrði þegar hann lagði símtólið nokkuð harkalega frá sér.

Hann kom aftur og ég sagðist því miður ekki skilja hvað hann hefði sagt við mig fyrr um nóttina. Friðrik var ekki ánægður með mig en svaraði mér og skellti á.

Ég lauk við fréttina. Ljóst var að hún yrði forsíðufrétt blaðsins. Ég ákvað að fara ekki heim að sofa. Beið frekar þar til Elías Snæland Jónsson mætti um klukkan sjö. Sagði honum hvað ég hefði gert og fylgdi máli mínu eftir.

DV kom úr prentun nokkru fyrir hádegi.

Fór heim í sturtu og mætti aftur til vinnu. Fréttin prýddi forsíðuna. DV kom úr prentun nokkru fyrir hádegi. Eftir hádegi var aftur ríkisstjórnarfundur. Nú í stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg. Ég, og fleira fólk frá hinum fjölmiðlunum, vorum framan við húsið. Ég kveið aðeins að hitta Friðrik Sophusson eftir að hafa vakið hann um miðja nótt.

Ég sá Friðrik koma gangandi eftir Lækjargötunni. Fyrir neðan Bernhöftstorfuna. Hvíti frakkinn var fráhnepptur og flaksaði í hægum vindinum og undan hröðu og kröftugu göngulagi fjármálaráðherrans. Hann hélt á DV. Hafði því greinilega lesið fréttina. Þegar hann kom að stjórnarráðshúsin stökk hann upp fyrstu tröppurnar. Bauð öllum góðan daginn. Svo sá hann mig. Gekk að mér hröðum og ákveðnum skrefum. Rétti fram höndina. Handtakið var þétt. Hann horfði í augun á mér og sagði: „Þetta var gott hjá þér.“

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: