- Advertisement -

Peningavaldið snapar fæting

Í skotlínunni eru Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir. Það á að koma þeim frá. Hvað sem það kostar.

Peningavaldið er fullt af kjarki. Enda með löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið, kannski ekki í vasanum, en í taumi hið minnsta. Nú á að berja niður hinu nýju forystu í verkalýðsfélögunum. Í skotlínunni eru Ragnar Þór Ingólfsson og Sólveig Anna Jónsdóttir. Það á að koma þeim frá. Hvað sem það kostar.

Peningavaldið efnir til ófriðar hvar sem tækifæri bjóðast. Eða bjóðast ekki. Allt er reynt. Eigin raðir og ríkisvaldsins eru þéttar. Í fyrstu framlínu eru Mogginn annars vegar og Icelandair hins vegar. Að baki þeim eru Halldór Benjamín Þorbergsson, Hörður Ægisson og Fréttablaðið og fleiri ámóta.

Peningavaldið þolir ekki lengur hina nýja foringja, Ragnar Þór og Sólveigu Önnu. Það vill fá sitt gamla og vinveitta fólk aftur til forystu í félögunum. Á næstu dögum og vikum verður sóknin hert. Það á að ryðja óvinveittum úr vegi. Sigur vannst í árásinni á flugfreyjur og sigurreifir munu menn halda áfram.

Ragnar Þór og Sólveig Anna standa ekki ein.

Peningavaldið veit sem er að lífeyrissjóðirnir og sjálfsafgreiðsla þar er það sem verður að viðhalda. Hver sá sem vogar sér að ætla að breyta því skal fá að finna til tevatnsins. Nú er það einkum Ragnar Þór sem ráðist er gegn. Einstaka félagi í VR lætur sem formaðurinn sé vanhæfur. Svo er ekki.

Peningavaldið mun fá að reyna, þó það hafi bæði Alþingi og ríkisstjórn, með sér í liði að bæði Ragnar Þór og Sólveig Anna standa ekki ein og einangruð. Launafólk ber mikið traust til þeirra og raðirnar munu þéttast eftir því sem atlögur peningavaldsins verða fleiri og ósmekklegri.

Sigurjón Magnús Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: