- Advertisement -

Engeyjarættin framleiðir ekkert

Ólína Þorvarðardóttir hefur augljóslega orðið fyrir atvinnuútilokun. 

Atli Þór Fanndal skrifar:

Ég er ótrúlega spenntur fyrir nýrri bók Ólínu Þorvarðardóttur. Ég hef nefnilega bæði kynnst því á eigin skinni og séð á fólki í kringum mig hvernig fólk er miskunnarlaust beitt atvinnuútilokun á Íslandi fyrir það að taka þátt í pólitík. Þegar málin koma svo upp þá er auðvitað gert lítið úr, dregið í efa og öllu þvælt saman. Nú eða klassíkin að segja föðurlega af yfirlæti; að málið sé nú flóknara og þessi aðili sé líka svo erfiður eða hjálpi sér nú ekki sjálfur. Ég hafði verið í blaðamennsku í svona fjóra daga þegar ég  fór að heyra sögur af því hvað ég væri nú drykkfelldur, latur, erfiður í skapinu, dónalegur og leiðinlegur. Hvert einasta atriði er rangt. Ég er rólegur, drekk lítið, vinn eins og skeppna, umhyggjusamur um mitt fólk og finnst ég sjálfur frekar fyndinn (þótt engu virðist skipta hvað ég segi fólkinu mínu það oft aldrei er mér trúað). Ég var að skrifa um pólitík og mest spillingu. Átti ég að vera með trúðsnef á meðan ég talaði um þessi mál svo enginn héldi að ég væri nú þurr á manninn? Að sjálfsögðu er ég ekki vinnan mín.

Í hvert sinn sem ég tjái mig les ég athugasemdir um að mig vilji enginn hafa í vinnu. Ég hafi aldrei gert neitt. Ég drekki svo mikið og allskonar skemmtilegt stöff. Hvað eiga þessir menn sameiginlegt? Jú allir eru þeir í einum flokk. Þessum sem alla tíð hefur stundað að jaðarsetja fólk með því að ýja að drykkjuskap, leti og geðveilu.

Já og svo á ég því sem næst alnafna, hann Atla Þór Fanndal, sem virðist stundum hafa átt í erfiðleikum. Það hefur ekki þvælst fyrir stjórnmálamönnum að hvísla að fólki að hans verk séu mín. Ekki alltaf óvart skal ég ykkur segja.

Annars er enginn skortur á ást í mínu lífi og svo það sé alveg ljóst þá finn ég ekki fyrir neinu nema virðingu og þakklæti í mínu daglega lífi frá fólki sem ég hitti. Það er kannski helst stjórnmálafólk og sussarar á netinu. Maður á ekki að leggja of mikið vægi í slíkt. Það er samt erfitt þegar þetta sama fólk hótar að loka bara rannsóknarriti sameiginlegu hjá Norðurlöndum ef maður sem er þeir fíla ekki fær aukatekjur. Kúltúrsleysið í íslenskri pólitík er svo gegndarlaust að fólk heldur að þetta sé eðlilegt. Það sé ljótt að minna á að oddviti Sjálfstæðisflokksins hafi fengið hundruð milljóna frítt frá Samherja af fé sem átti uppruna sinni í Kýpurfélagi sem kaupir ráðherra enda slíkt bara ljót áras á íbúa Selfoss. Við erum svo pækluð í þessu viðstöðulausa villuljósi.

Það er ofboðslegt frelsi að komast frá Íslandi.

Sem betur fer var ég svo heppinn að geta skapað mér vinnu erlendis og svo þrjóskur að ég skapa mér tækifæri hér á Íslandi fyrst og fremst til að fara í taugarnar í andverðleikum landsins. Það kallar oftast á svona fimmfalda vinnu og talsvert hark að geta gengið frjáls hugsana sinna á Íslandi og skapað sér tækifæri en það er ömurleg tilhugsun að þurfa að undirgangast einhverja lygi til að lifa hér – að lokum er það því þess virði en auðvitað er þetta ástæða þess að frástreymið á ungu fólki frá einu auðugusta ríki heims er með mesta móti þrátt fyrir ár uppsveiflu á Íslandi og ár erfiðleika í Evrópu.

Það er ofboðslegt frelsi að komast frá Íslandi en mikið ofboðslega er það sárt að þurfa að leita sér lífsviðurværis erlendis því flokksskírteinið skortir.

Ólína Þorvarðardóttir hefur augljóslega orðið fyrir atvinnuútilokun.  Þór Saari er annað dæmi. Þorvaldur Gylfason er enn eitt dæmið. Já og Fiskistofuuppljóstrarinn. Um hvað snerist allt landsréttarmálið? Fjöldi mála á Akureyri? Þegar Samherji hótaði að loka bara Dalvík svo Seðlabankinn léti af rannsókn sinni?

Þetta er ástæða þess að Píratar og Samfylkingin verða að taka sig saman í andlitinu og rústa næstu kosningum. Viðreisn vilja nú alltaf stimpla sig umbótum og því ættu þau auðvitað að ganga fram að hörku en harka um annað en stóla er svo sem ekki þess flokks. Þannig að don’t hold your breath. Viðreisn þekkja svona hluti ekki á eigin skinni.

Næstu kosningar snúast um að hér verði búandi.

Það er kannski sorglegast við VG um þessar mundir. Hvernig flokkurinn styður beinlínis atvinnuofsóknir gegn eigin fólki. Það er alveg suddalegur lúserakúltúr…. „Faðir, fyrirgefðu þeim, því þau vita ekki hvað þau gera.“

Kaupið endilega bókina hennar og tökum alvöru umræðu um hvers vegna hæfileikaríkt fólk á svona erfitt uppdráttar hér á landi., Og kannski um leið – svona sem sidenote – umræðu um hvað Engeyjarættin framleiðir ekkert. Þau eru bara first runners og rentusóknar… en það er svona sidenote… baksaga atvinnuofsóknanna.

Hlakka til að lesa nýja bók Ólínu Þorvarðardóttur og að sjálfsagt er þegar hafin rógsherferðin til að tala þetta allt niður. Þið vitið… já en hún er svo erfið hún Ólína…


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: