- Advertisement -

Svona er Ísland, spillingin er þægileg, kurteis og kósý

Hallgrímur Helgason skrifaði:

Nú ætla ég að leyfa mér að hafa smá fordóma um formann Landskjörstjórnar.

Á morgunvakt Rásar eitt í morgun var kósý spjall við formann Landskjörstjórnar vegna komandi kosninga. Nafn formannsins, Kristín Edwald, hringdi óneitanlega bjöllum.

Og smá upprifjun skilaði þessu: Fyrir aðeins rúmum tveimur mánuðum var Kristín Edwald formaður yfirkjörstjórnar í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rvík og las upp úrslitin í beinni úr Valhöll.

Styttra er svo síðan að við lásum fréttir um setu hennar í „eftirlitsnefnd með starfsháttum lögreglu“ sem hafði þá nýfarið yfir starfshætti lögreglu í Ásmundarsal á liðinni Þorkláksmessu. Frétt sem nefndin sendi inn í Morgunblaðið hafði fyrirsögnina „Ámælisverð framkoma lögregluþjóna í Ásmundarsal“. Þar voru birtir bútar úr persónulegu samtali lögreglumanna á vettvangi. Og vitnað í formanninn: „Að mati nefndarinnar komu fram í sam­talinu for­dómar gagn­vart þeim sem af­skipti voru höfð af.“ Semsagt fordómar gagnvart Bjarna Ben.

Það getur varla verið tilviljun að stjórnandi prófkjörs í mest ráðandi flokki landsins sé líka yfirmaður þingkosninga í sama landi?

Nú ætla ég að leyfa mér að hafa smá fordóma um formann Landskjörstjórnar. Hún kann að vera grandvör kona og góður lögfræðingur á stofu sinni Lex en þessi tvö dæmi, um þátt hennar í prófkjöri XD og grímulausa varðstöðu hennar um formanninn BB, sem kom fram í illri meðferð eftirlitsnefndarinnar á óbreyttum lögreglumönnum, segja okkur að hún geti varla verið hlutlaus í starfi sínu sem yfirmaður Alþingiskosninga.

Ísland er lítið og kósy meðvirknisland og auðvitað var hún bara í kósý spjalli þarna í morgun, og ekkert spurð út í störf sín fyrir Sjálfstæðisflokkinn eða eftirlit með lögreglu. Guðni Tómasson átti þó óviljandi gullkorn þegar þau ræddu hversu formlegt starf formanns Landskjörstjórnar væri í raun og hann spurði: „En þetta er samt ekkert sem þú gerir bara með vinstri hendinni?“

Svona er Ísland, spillingin er þægileg, kurteis og kósý.

Það fór þó smá hrollur um hlustandann þegar Kristín fór í lokin að að tala um skiptingu Reykjavíkurkjördæmanna í norður og suður og sagði að það væri hennar að ákveða hvar línan yrði dregin fyrir komandi kosningar. Í blálokin plantaði hún svo þeirri hugmynd „sem mikið hefur verið rædd“ og „brennur helst á íbúum Reykjavíkur“, hvort ekki væri betra að skipta Rvík í austur og vestur frekar en norður og suður. Þarna varð manni hugsað til USA og aðgerða Repúblikana til að endurteikna kjördæmin í von um betri árangur flokksins í kosningum. Það kemur kannski sumum vel að hafa „bláu“ úthverfin í einu kjördæmi og „rauða“ vesturbæinn í öðru?

Það getur varla verið tilviljun að stjórnandi prófkjörs í mest ráðandi flokki landsins sé líka yfirmaður þingkosninga í sama landi?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: