- Advertisement -

Ríkisstjórnin tók meðvitaða ákvörðun í hruninu um að fórna heimilunum á altari fjármálakerfisins

Vilhjálmur Birgisson skrifar:

Stórum hluta kosningaloforða flokkanna er sópað snaggaralega undir teppið eftir að kosningar hafa átt sér stað.

Ég hlustaði á formann Samfylkingarinnar í þættinum Ísland í bítið í morgun. Það sem vakti athygli mína var að mér fannst eins og hann gerði frekar lítið úr þeim ofboðslegu hamförum sem þúsundir heimila urðu fyrir vegna þess að ríkisstjórnin sem fór með völd á hrunárunum tók meðvitaða ákvörðun í hruninu um að fórna heimilunum á altari fjármálakerfisins.

Ég veit að þúsundir heimila hafa ekki gleymt að þegar umrædd ríkisstjórn tók ákvörðun að taka ekki verðtrygginguna á húsnæðislánum heimilanna úr sambandi í október 2008, en sú ákvörðun gerði það að verkum að verðtryggðar skuldir heimilanna stökkbreyttust á nánast einni nóttu um 400 milljarða.

Ég veit líka að íslensk heimili eru ekki heldur búin að gleyma að þegar gengistryggði dómurinn féll í Hæstarétti 2010 ákváðu stjórnvöld að milda áhrif dómsins með því að setja Árna Pálslögin nr./151 2010. Þetta var gert þrátt fyrir að allar umsagnir til Alþingis kvæðu á um að það stæðist ekki lög að láta vexti gilda afturvirkt.

Ráðherrann:

„Engar töfralausnir séu í boði hvað varðar skuldavanda heimilanna. Ekki sé hægt að láta skuldir hverfa með pennastriki, einhver þurfi að greiða reikninginn.“

Mig grunar að íslensk heimili séu sum hver ekki búin að gleyma hvað, efnahags- og viðskiptaráðherra sagði eftir að dómurinn féll um gengistryggðu lánin 2010. Hann sagði: „ það fráleita niðurstöðu að hinir erlendu lágu vextir fengju að standa óhaggaðir því slíkt myndi ógna fjármálastöðugleika.“

Það er einnig mikilvægt að rifja upp hvað þessi sami efnahags- og viðskiptaráðherra sagði 1. júní 2009 um 213 milljarða skuldbindingu á skattgreiðendur vegn Icesave I samningsins: „Því fer þó fjarri að byrðarnar fyrir ríkið eða þjóðarbúið verði slíkar að ekki verði hægt að standa undir þeim. Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave.“

Þetta sagði fyrrverandi efnahagsráðherra 1. júní 2009. En hvað skyldi hann hafa sagt átta mánuðum síðar eða nánar tiltekið 1. febrúar 2010 þegar hann var spurður um hvort ekkert ætti að hjálpa skuldsettum heimilum var svarið eftirfarandi: „engar töfralausnir séu í boði hvað varðar skuldavanda heimilanna. Ekki sé hægt að láta skuldir hverfa með pennastriki, einhver þurfi að greiða reikninginn.“

Já kæru félagar, skjaldborgarríkisstjórnin sagði á þessum tíma “ekkert mál” að leggja 213 milljarða á skattgreiðendur til að slökkva elda í Bretlandi og Hollandi og voru tilbúin til að setja 250 milljarða til viðbótar þeim 400 milljörðum sem þeir voru nú þegar búnir að setja inn í fjármálakerfið til að bjarga fjármálakerfinu. En að koma skuldsettum heimilum til hjálpar – nei takk, slíkt var ekki hægt, heimilunum mátti fórna á altari fjármálakerfisins.

Því spyr ég af hverju ættu íslensk heimili að trúa kosningarloforðum þeirra núna, sem báru ábyrgð á því að heimilunum var fórnað á blóðugu altari fjármálakerfisins?

Hins vegar skal það sagt að það er sorgleg staðreynd að það er því miður oft á tíðum afar lítið að marka kosningaloforð stjórnmálaflokka, enda er stórum hluta kosningaloforða flokkanna sópað snaggaralega undir teppið eftir að kosningar hafa átt sér stað.

Munum að okurvextir, verðtrygging, fátækt og hversu dýrt er að lifa hér á landi er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk sem auðveldlega er hægt að breyta, allt sem þarf, er vilji, kjarkur og þor!

Að lokum skora ég á alla stjórnmálaflokka að sýna kjósendum þá lágmarks virðingu að standa einu sinni við þau loforð sem þau boða í aðdraganda kosninga.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: