- Advertisement -

Stungur, baktjaldamakk og hégómi

Sigurjón Þórðarson skrifar:

Nýtt viðtal Björns Þorlákssonar við forsætisráðherra í Fréttablaðinu, í tilefni 5 ára starfsafmælis hennar, var athyglisvert þar sem það veitti innsýn inn í hugarheim Katrínar. Aðkallandi verkefni stjórnmálanna á borð við; að ná niður verðbólgu, húsnæðismálin, kjarasamningar eða berjast gegn spillingunni, virðast ekki vera ofarlega á blaði.

Efst í huga hennar var að dásama vináttu, traust og samstarf sitt við formenn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, en þó einkum við Bjarna Benediktsson. Eða eins og Katrín glæpasagnahöfundur lýsir nánu sambandi þremenninganna að það sé svo gott, að hún geti alveg treyst því að hún verði ekki stungin í bakið af vinum sínum. Umburðarlyndi hennar gagnvart tvímenningunum virðist óþrjótandi þar sem margur hefði án efa talið að klúður og augljósa spilling í kringum sölu Bjarna á Íslandsbanka væri óþokkabragð sem bitnað harkalega á trausti ríkisstjórnarinnar og ekki hve síst forsætisráðherra.

Það virðist sem hún hafi ákveðið að stinga félaga sína í Vg í bakið og lagt framtíðarmöguleika flokksins í söluna fyrir stól forsætisráðherra.

Ekki er hún heldur að sýta það að vinirnir hafi staðið saman sem einn maður gegn því að Vg nokkuð bitastætt málefnalega inn í stjórnarsáttmálann.

Í viðtalinu gefur hún ekki mikið fyrir gagnsæ vinnubrögð og stefnumótun heldur segist hún hróðug vinna mikið á bak við tjöldin og telur það almennt farsælla til árangurs.

Það sem liðsmenn Vg hljóta að setja spurningamerki við er að Katrín játar í viðtalinu að hafa lagt það kalda mat á stöðu mála, áður en hún myndaði ríkisstjórnina að stjórnarsamstarfið myndi skaða flokkinn. Það virðist sem hún hafi ákveðið að stinga félaga sína í Vg í bakið og lagt framtíðarmöguleika flokksins í söluna fyrir stól forsætisráðherra.

Forsætisráðherra munaði ekki um að stinga náttúruverndarsinna í bakið með því að samþykkja orkupakka Evrópusambandsins og greiða þar með fyrir stórfelldum virkjunaráformum vítt og breitt um landið.

Ekki virðist heldur hafa verið neitt hik á formanni Vg að stinga félaga sína í Skagafirði í bakið, með því að samþykkja virkjun Jökulána í Skagafirði sem skiptimynt í stjórnarmyndunarviðræðum fyrir ári síðan. Baktjaldamakkið kom öllum félögum hennar í Skagafirði á óvart og bar svo við að þingmaður flokksins komst við í ræðustól Alþingis þegar honum varð ljóst að Katrín var búin að samþykkja virkjunaráformin.

Sama máli gegndi um mál sem átti að verða “ófrávíkjanleg” skrautfjöður flokksins þ.e. Miðhálendisþjóðgarðinn og sjávarútvegsstefnu flokksins.

Öll áform um þjóðgarðinn voru urðuð við gerð stjórnarsáttmálans og sama á við um sjávarútvegsstefnu Vg, en Svandís Svavarsdóttir umgengst hana eins um væri að ræða hvert annað spilliefni og hefur í þess stað tekið upp stefnu Samherja í verkum sínum.

Það er eflaust gott fyrir forsætisráðherra að eiga vináttu og traust samstarfsflokkanna í ríkisstjórn, en eru engin mörk á því hvað hægt er að ganga langt í að svíkja stefnu Vg til þess að svala eigin hégómagirnd?


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: